Lífið

Haraldur tekur mara­þonið fyrir Yazan

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Haraldur hyggst tvöfalda þau framlög sem lögð verða fram vegna þátttöku hans í Reykjavíkurmaraþoninu í nafni Yazan.
Haraldur hyggst tvöfalda þau framlög sem lögð verða fram vegna þátttöku hans í Reykjavíkurmaraþoninu í nafni Yazan. Vísir

Haraldur Þorleifsson athafnamaður ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í nafni hins ellefu ára gamla Yazan Tamimi. Yazan er með vöðvarýrnunarsjúkdóm líkt og Haraldur en til stendur að vísa fjölskyldu hans úr landi eftir verslunarmannahelgi.

„Þú getur heitið á mig og ég mun tvöfalda framlagið þitt,“ skrifar Haraldur í færslu á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Mál Yazan hefur verið í fréttum eftir að Kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í júní að honum og fjölskyldu hans skyldi vísað úr landi.

Yazan glímir við hrörnunarsjúkdóminn Duchenne og kom hingað fyrir tæpu ári síðan ásamt fjölskyldu sinni, sem er frá Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu. Fjölskyldan flúði Palestínu vegna versnandi ástands í landinu og aðkasts yfirvalda og vegna skorts á þjónustu fyrir Yazan.

Þúsundir hafa ritað nafn sitt undir undirskriftalista vegna máls Yazan þar sem skorað er á Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að grípa inn í svo Yazan Tamimi og fjölskyldu hans verða ekki vísað úr landi. Þá hefur ákvörðuninni ítrekað verið mótmælt með hinum ýmsu gjörningum og samkomum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×