Sport

Biles sýndi 546 demanta geitarhálsmen eftir að hafa unnið gullið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles með gullverðlaunin og geitarhálsmenið.
Simone Biles með gullverðlaunin og geitarhálsmenið. getty/Jamie Squire

Simone Biles frumsýndi sérstakt hálsmen eftir að hafa unnið sigur í fjölþraut í fimleikakeppni Ólympíuleikanna í dag.

Biles vann fjölþrautina í Ríó 2016 en dró sig úr keppni vegna andlegra veikinda í Tókýó fyrir þremur árum. Hún endurheimti gullið í greininni í dag og bætti þar með sjöttu gullverðlaunum sínum á Ólympíuleikum í glæsilegt safnið.

Þegar Biles fékk gullmedalíuna dró hún fram hálsmen með mynd af glitrandi geit. GOAT er skammstöfun fyrir Greatest of all Time og það er erfitt að halda öðru fram en Biles sé fremsta fimleikakona sögunnar og einn fremsti íþróttamaður allra tíma.

Biles lét sérhanna hálsmenið en samkvæmt fyrirtækinu sem gerði það er menið með hvorki fleiri né færri en 546 demöntum.

Biles vann einnig gull í liðakeppninni í París og hefur alls unnið til 39 verðlauna á Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum á ferlinum.

Hún er sigursælasta fimleikakona sögunnar og getur enn bætt þremur verðlaunum í safnið í París. Biles á nefnilega eftir að keppa á einstökum áhöldum, öllum nema tvíslá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×