Sport

Segir heims­metið ó­mögu­legt af­rek og líkir við lyfjamisnotkun Austur-Þjóðverja

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Brett Hawke keppti fyrir hönd Ástralíu á Ólympíuleikunum 2000 og 2004. Hann starfar í dag sem sundþjálfari og sérfræðingur um íþróttina í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum.
Brett Hawke keppti fyrir hönd Ástralíu á Ólympíuleikunum 2000 og 2004. Hann starfar í dag sem sundþjálfari og sérfræðingur um íþróttina í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Mark Nolan/Getty Images

Ástralski sundþjálfarinn og fyrrum Ólympíufarinn Brett Hawke sakar kínverska sundmanninn Pan Zhanle um lyfjamisnotkun eftir að hann stórbætti eigið heimsmet í hundrað metra skriðsundi og synti sekúndu hraðar en næsti maður í lauginni.

„Ég ætla bara að vera hreinskilinn. Ég er reiður eftir þetta sund, af nokkrum ástæðum. Hlustið nú, meðal minna vina eru nokkrir af bestu sundköppum allra tíma; Rowdy Gaines, Alex Popov, Gary Hall Jr., Anthony Ervin og King Kyle Chalmers.

Í sögu sinni líkti Brett Hawke heimsmetinu við lyfjasvindl í Austur-Þýskalandi og sagði alþjóðaólympíusambandið ekki standa sig í prófunum.

Ég þekki þetta fólk persónulega og hef fylgst rækilega með þeim í þrjátíu ár. Ég hef rýnt í þessa íþrótt og skil hana vel, ég er sérfræðingur í henni. Ástæðan fyrir því að ég er reiður er að þú vinnur einfaldlega ekki hundrað metra skriðsund á þessu sviði með heilli líkamslengd. Þú bara gerir það ekki, það er ekki mögulegt fyrir nokkurn mann“ sagði Brett í þrumuræðu á Instagram síðu sinni í gær.

Brett er ekki sá fyrsti sem sakar kínverska sundfólkið á Ólympíuleikunum um lyfjamisnotkun. Eftir að greint var frá því að 23 af 30 manna sundliði Kína hafi fallið á lyfjaprófi fyrir ÓL í Tókýó 2021 hafa þær ásakanir borist úr ýmsum áttum.

Samlandi Brett sem lýsir sundi í áströlsku sjónvarpi, Neil Mitchell, olli miklu fjaðrafoki þegar hann sagði afrek Kínverja í sundi byggt á svindli.

Pan Zhanle var ekki einn af þeim sem féll á lyfjaprófi fyrir síðustu ÓL en hefur samt sem áður mátt sæta þeim ásökunum ítrekað að hann sé að misnota lyf, svo ótrúleg þykja afrek hans í lauginni.

Sjálfur ber hann fyrir sig að hafa aldrei innbyrt ólögleg efni og segir keppinauta sína ekki bera virðingu fyrir sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×