Sport

Segir ekki rétt að hún hafi verið rekin úr Ólympíuþorpinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Luana Alonso lauk keppni á Ólympíuleikunum í síðustu viku.
Luana Alonso lauk keppni á Ólympíuleikunum í síðustu viku. Michael Reaves/Getty Images

Luana Alonso ákvað að hætta í íþróttum eftir að hafa ekki komist áfram í undanúrslit í sundi. Hún var beðin vinsamlega um að yfirgefa Ólympíuþorpið því viðvera hennar truflaði annað íþróttafólk, en svaraði fyrir sig og sagði það ekki satt. 

Luana er frá Paragvæ og lauk keppni í síðustu viku en varð áfram í Ólympíuþorpinu og naut lífsins í París. Hún vakti athygli fyrir að klæðast aldrei íþróttagalla merktum Paragvæ, frekar var hún í eigin fatnaði. 

Hún var dugleg að deila upplifun sinni af París á Instagram, verslaði tískuvörur og snæddi á dýrum veitingastöðum, horfði á tennis og hitti meðal annars Rafael Nadal.

Paragvæska Ólympíusambandið bað hana vinsamlegast um að yfirgefa Ólympíuþorpið, sagði viðveru hennar truflandi fyrir annað íþróttafólk en útskýrði það ekkert nánar í yfirlýsingu sinni. Henni var þakkað fyrir að fylgja fyrirmælum.

Luana leitaði til samfélagsmiðla og svaraði fyrir sig. Hún sagði verið að dreifa lygum og hún hafi ekki verið rekin burt heldur sjálf ákveðið að yfirgefa París. Eins og áður segir tilkynnti hún eftir að hafa ekki komist í undanúrslit að hún væri hætt í íþróttum, hvað tekur við hjá henni er enn óvíst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×