Handbolti

Frakkar og Danir í undan­úr­slit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þær frönsku fögnuðu vel enn einum sigrinum á ÓL.
Þær frönsku fögnuðu vel enn einum sigrinum á ÓL. Getty

Frakkland og Danmörk komust í undanúrslit í handbolta kvenna á Ólympíuleikunum. Danmörk mætir að líkindum Noregi, sem leikur undir stjórn Þóris Hergeirssonar.

Danmörk mætti Hollandi snemma í morgun en þær hollensku hófu leikinn umtalsvert betur. Liðið skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins og var með forystuna lengst af fyrri hálfleik. Í stöðunni 7-3 fyrir Holland snerist leikurinn hins vegar. Danmörk skoraði átta mörk gegn þremur og leiddi 11-10 í hálfleik.

Þær dönsku gerðu það sama og þær hollensku í fyrri hálfleiknum eftir hlé. Danmörk skoraði fyrstu fjögur mörk hálfleiksins og eftir það var sigurinn aldrei í hættu. Danmörk vann 29-25 og mætir annað hvort Noregi eða Brasilíu í undanúrslitum. Þau lið mætast í kvöld.

Danskar unnu góðan sigur á Hollandi.Getty

Heimakonur í Frakklandi tryggðu einnig sæti sitt í undanúrslitum. Frakkland er eina liðið á leikunum sem hefur unnið alla leiki sína og dróst gegn þýsku landsliði sem hafði aðeins unnið einn leik af fimm í riðlakeppninni.

Frakkland komst snemma 9-3 yfir og þrátt fyrir að Þýskaland hafi svarað með 7-1 kafla og tekist að jafna 15-15 í seinni hálfleiknum var sigur þeirra frönsku aldrei í hættu í kjölfarið. Liðið vann forskot sitt upp í þrjú mörk og það hélst til loka. 26-23 úrslit leiksins, Frakklandi í vil.

Seinni partinn mætast Ungverjaland og Svíþjóð og mun sigurvegari þess leiks mæta Frökkum í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×