Sport

Vann fyrstu verð­launin fyrir flóttamannalið Ólympíu­leikanna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Cindy Winner Djankeu Ngamba varð fyrst til að vinna verðlaun fyrir flóttamannaliðið.
Cindy Winner Djankeu Ngamba varð fyrst til að vinna verðlaun fyrir flóttamannaliðið. Tyler Miller/Sportsfile via Getty Images

Hnefaleikakonan Cindy Ngamba vann bronsverðlaun og varð þar með fyrsti keppandi í flóttamannaliði Ólympíuleikanna til að vinna verðlaun.

Flóttamannaliðið tekur þátt á Ólympíuleikunum í þriðja sinn í ár en það var sett á laggirnar fyrir leikana í Ríó 2016.

Alls er flóttamannaliðið skipað 36 íþróttamönnum í tólf greinum sem koma frá 11 ríkjum. Til að vera gjaldgengur þarf að ná tilteknum árangri og njóta viðurkenndrar stöðu flóttamanns að mati Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNHCR. Flestir voru valdir úr hópi flótta- og íþróttamanna sem hafa notið skólastyrkja Alþjóða Ólympíunefndarinnar.

Cindy Ngamba er fædd í Kamerún en hefur búið í Bretlandi frá 11 ára aldri. Hún lék lengi vel knattspyrnu þar til hún uppgötvaði hnefaleika. Hún er fyrsta konan sem keppir í þeirri grein fyrir hönd flóttamannaliðsins.

Cindy Ngamba gat glaðst þrátt fyrir að hafa tapað bardaganum.Ben McShane/Sportsfile via Getty Images

Cindy keppti í undanúrslitum í gær gegn Atheyna Bylon frá Panama og tapaði á skiptri dómaraákvörðun. Hún komst því ekki áfram í úrslit en þar sem ekki er keppt um þriðja sætið í hnefaleikum fær Cindy bronsverðlaun, líkt og Caitlin Parker frá Ástralíu, hinn keppandinn sem tapaði í undanúrslitum. 

„Ég vil nýta tækifærið og segja við flóttafólk um allan heim, þar með talið flóttafólk sem er ekki í íþróttum. Haldið áfram að leggja hart að ykkur, hafið trú á sjálfum ykkur og þið getið náð öllum markmiðum sem þið setijð ykkur,“ sagði Cindy eftir sigurinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×