Sport

Björg­vin Karl endaði sex­tándi á heims­leikunum í Cross­Fit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson var með á elleftu heimsleikunum í röð.
Björgvin Karl Guðmundsson var með á elleftu heimsleikunum í röð. @bk_gudmundsson

Bandaríkjamaðurinn James Sprague og ástralska konan Tia-Clair Toomey urðu um helgina heimsmeistarar í CrossFit.

Heimsleikarnir í ár fóru fram í skugga þess að Lazar Dukic drukknaði í fyrstu greininni á fimmtudaginn. Margir keppendur treystu sér ekki til að halda áfram keppni og þar á meðal voru báðir heimsmeistararnir frá því í fyrra, Laura Horvath og Jeffrey Adler. 

Ísland átti einn keppenda í mótinu og það var Björgvin Karl Guðmundsson. Björgvin Karl endaði í sextánda sæti á mótinu í ár en hann hækkað sig um nokkur sæti í lokin með því að ná öðru sætinu í lokagreininni.

Björgvin setti met með því að taka þátt í elleftu heimsleikunum í röð. Hann hefur þó ekki verið neðar síðan á fyrstu heimsleikum sínum árið 2014.

Toomey kom til baka eftir barneignarfrí og varð heimsmeistari í sjöunda sinn. Hún vann í sex ár í röð frá 2017 til 2022.

Sigur Toomey var mjög sannfærandi eins og svo oft áður. Pólverjinn Gabi Migala varð önnur en 151 stigi á eftir henni. Þriðja varð síðan Emily Rolfe frá Kanada.

James Sprague er aðeins 22 ára gamall og var að vinna heimsleikana í fyrsta sinn. Hann varð í 25. sæti í fyrra sem voru hans fyrstu heimsleikar í fullorðinsflokki.

Kanadamaðurinn Brent Fikowski, sem hefur verið lengi við toppinn en aldrei orðið heimsmeistari, var með sextíu stiga forskot eftir átta greinar. Fikowski gaf eftir í lokin og endaði í þriðja sæti. Dallin Pepper varð annar.

Mayhem Thunder vann liðakeppnina en í liðinu voru Íslandsvinurinn Khan Porter en líka Kara Saunders, James Newbury og Emily de Rooy. Kara hefur verið lengi við toppinn í einstaklingskeppninni en hafði aldrei orðið heimsmeistari. Það tókst nú hjá henni í liðakeppninni.

Þetta er líka besti árangur liðs frá Eyjaálfu á heimsleikunum en besti árangurinn fyrir þetta ár var sjötta sæti.

Porter var í liði CrossFit Reykjavíkur með Anníe Mist Þórisdóttur en það lið náði fjórða sætinu á heimsleikunum 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×