Sport

Búið að safna yfir 58 milljónum fyrir fjöl­skyldu Dukic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimsleikarnir voru kláraðir þrátt fyrir fráfall Lazar Dukic en þeir fóru fram í minningu hans.
Heimsleikarnir voru kláraðir þrátt fyrir fráfall Lazar Dukic en þeir fóru fram í minningu hans. @crossfitgames

Serbinn Lazar Dukic drukknaði í fyrstu grein á heimsleikunum í CrossFit á fimmtudaginn og fljótlega fór í gang söfnun fyrir kærustu hans og fjölskyldu.

Fráfall hans var mikið áfall fyrir alla í CrossFit heiminum og þó nokkrir af keppendum heimsleikanna tóku þá ákvörðun að þau treystu sér ekki til að halda áfram keppni.

CrossFit samtökin ákváðu, að eigin sögn í samráði við fjölskyldu Dukic og keppendur, að klára heimsleikana.

Dukic var þrautreyndur keppandi og hafði margoft tekið þátt í heimsleikunum sem og fleiri af stóru CrossFit mótum heimsins.

Margir hafa minnst Dukic og hann snerti líf marga með vinsemd, húmor og góðum stuðningi sínum við aðra keppendur.

Söfnun fyrir fjölskyldu Dukic fékk mikil viðbrögð og hefur gengið vel. Takmarkið var tvö hundruð þúsund Bandaríkjadalir eða tæpar 28 milljónir króna.

Í morgun höfðu safnast um 420 þúsund dalir eða meira en 58 milljónir íslenskra króna. Alls hafa yfir sjö þúsund og fimm hundruð manns látið fé af hendi í söfnunina. Hér er hægt að taka þátt í söfnuninni fyrir fjölskyldu Dukic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×