Handbolti

Óttast um fram­tíð hand­boltans á Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Guðmundur Guðmundsson með silfurverðlaunin sem íslenska handboltalandsliðið vann í Peking árið 2008.
Ólafur Stefánsson og Guðmundur Guðmundsson með silfurverðlaunin sem íslenska handboltalandsliðið vann í Peking árið 2008. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur ekki komist á síðustu tvo Ólympíuleika og ef marka má áhyggjur handboltasérfræðings þá er mögulega hver að verða síðastur að keppa í handbolta á leikunum.

Það er mikil samkeppni milli íþróttagreina heimsins um að fá að vera með á Ólympíuleikunum og langt frá því að allar fái að vera með. Hver gestgjafi getur valið fimm til sex íþróttagreinar á hverja leika og það þýðir að aðrar detta út í staðinn.

Auðvitað mun stóru greinarnar eins og frjálsar, fimleikar og sund aldrei detta út en það eru minni greinarnar sem þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum.

Hnefaleikarnir eru nýjasta íþróttagreinin sem er á útleið. En það er líka óvissa með framtíð handboltans á Ólympíuleikunum.

Handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen veltir fyrir sér stöðu handboltans í skrifum sínum á samfélagsmiðlum. Að hans mati eru það slæmar fréttir fyrir handboltann að Thomas Bach sé að hætta sem forseti Alþjóðaólympíusambandsins.

Bach er nefnilega mjög góður vinur Hassan Moustafa, forseta Alþjóðahandboltasambandsins.

Það er mat danska sérfræðingsins að þetta brotthvarf Bach gæti veikt stöðu handboltans við borðið hjá Alþjóðaólympíusambandinu.

Boysen segir að það hafi áður verið orðrómur um að handboltinn væri á leiðinni út.

Handbolti hefur verið Ólympíugrein frá leikunum í München árið 1972. Íslenska karlalandsliðið hefur verið með á sjö leikum og vann silfurverðlaun á leikunum í Peking árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×