Íslenski boltinn

KR þrýstir á stjórn KSÍ vegna brotna marksins

Sindri Sverrisson skrifar
Áhorfendur og leikmenn voru mættir í Kórinn síðasta fimmtudag en ekkert varð af leiknum.
Áhorfendur og leikmenn voru mættir í Kórinn síðasta fimmtudag en ekkert varð af leiknum. Vísir/VPE

KR-ingar sendu inn erindi til stjórnar KSÍ sem tekið verður fyrir á stjórnarfundi í dag, vegna leiksins við HK sem ekki fór fram í síðustu viku vegna brotins marks í Kórnum. Mögulegt er að HK verði dæmt 3-0 tap vegna málsins.

Mótanefnd KSÍ tilkynnti í dag að búið væri að finna nýja dagsetningu fyrir leikinn og stendur til að hann fari fram í Kórnum eftir níu daga, fimmtudagskvöldið 22. ágúst, tveimur vikum eftir upphaflegan leikdag. Þar með er þó ekki víst að leikurinn fari yfirhöfuð fram.

KR-ingar sendu erindi til stjórnar KSÍ vegna þessarar ákvörðunar mótanefndar, og vilja þannig setja það í hendur stjórnar að ákveða hvort að málinu yrði vísað til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.

Stjórn KSÍ þarf því að taka stóra ákvörðun í dag því hinn kostur hennar er að standa við ákvörðun mótanefndar, telji hún að ekki beri að refsa HK fyrir að ekki skyldi hægt að spila.

Leikmenn og stuðningsmenn HK og KR voru mættir í Kórinn á fimmtudaginn í síðustu viku, þegar í ljós kom að annað markið í Kórnum væri brotið. Ekki var hægt að bregðast við því í tæka tíð og leikurinn því ekki spilaður. Framkvæmdir höfðu staðið yfir í Kórnum og þar verið lagt nýtt gervigras.

Ef að stjórn KSÍ ákveður á fundinum í dag að standa við ákvörðun mótanefndar þá eiga KR-ingar kost á að kæra þá ákvörðun til aganefndar KSÍ.

Fari málið til aganefndar er ljóst að hún þyrfti að koma saman sem fyrst til að fá niðurstöðu í málið, enda hugsanlegt að ákvörðun hennar verði svo áfrýjað og aðeins níu dagar til stefnu miðað við tilkynningu mótanefndar í dag.

Ljóst er að málið gæti haft mikil áhrif á fallbaráttuna í Bestu deild karla. HK er sem stendur í fallsæti með 14 stig en KR er með 18 stig eftir sigur sinn á FH í gærkvöld. Verði KR dæmdur 3-0 sigur yrði munurinn á liðunum því sjö stig en fari leikurinn fram gefst HK tækifæri til að komast ansi nálægt KR.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×