Handbolti

Bóna bíla til að eiga fyrir Evrópu­keppni

Sindri Sverrisson skrifar
Haukakonur eru nýkomnar úr æfingaferð til Svíþjóðar þar sem þær undirbjuggu sig fyrir komandi átök í EHF-bikarnum og Olís-deildinni.
Haukakonur eru nýkomnar úr æfingaferð til Svíþjóðar þar sem þær undirbjuggu sig fyrir komandi átök í EHF-bikarnum og Olís-deildinni. @HaukarTopphandbolti

Það er gömul saga og ný að kostnaðarsamt sé fyrir íslensk íþróttalið að taka þátt í Evrópukeppnum í handbolta. Haukakonur ætla að þrífa bíla um helgina til að safna fyrir sinni þátttöku.

Haukakonur snúa aftur til keppni í Evrópu í haust, eftir nokkurra ára hlé, eftir að hafa spilað til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en tapað þar fyrir Val. Bæði liðin leika í EHF-bikarnum í haust og hefja keppni í 64-liða úrslitum í október.

Haukar eiga fyrir höndum einvígi við Eupen frá Belgíu en Valskonur spila við Zalgiris Kaunas frá Litáen. Að því gefnu að ekki sé samið um að leika báða leiki í sama landi þá munu íslensku liðin byrja á að spila á útivelli helgina 5.-6. október og svo á heimavelli viku síðar.

Haukakonur ætla nú að safna sér fyrir Evrópuleikjum sínum með því að bjóða upp á bílaþvott í Bónsvítunni, Dalshrauni 24 í Hafnarfirði, á laugardaginn. 

Í auglýsingu kemur fram að í þvottinum felist þrif að innan og utan, bón og tjöruhreinsun, og kostar þvotturinn 14.000 fyrir litla fólksbíla, 16.000 fyrir stóra fólksbíla og 18.000 fyrir jeppa og sendibíla. Nánari upplýsingar eru á Facebook-síðu Hauka.

Haukakonur eru nýkomnar úr æfingaferð til Skövde í Svíþjóð þar sem liðið tók þátt í Annliz Cup æfingamótinu og spilaði við Köbenhavn, Sävehof og Skövde, í undirbúningi fyrir Evrópukeppnina í vetur. Haukar hefja svo keppni í Olís-deildinni í næsta mánuði með leik við nýliða Selfoss en áætlað er að fyrsta umferð fari fram laugardaginn 7. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×