Upp­gjör og við­töl: Kefla­vík - FH 3-4 | Stór­kost­leg endur­koma hjá FH-liðinu gegn lánlausum Kefl­víkingum

Hjörvar Ólafsson skrifar
FH-ingar léku á als oddi í seinni hálfleik. 
FH-ingar léku á als oddi í seinni hálfleik.  Vísir/Diego

Keflavík kastaði frá sér þriggja marka forystu og þremur mikilvægum stigum í fallbaráttu sinni í Bestu deild kvenna í fótbolta þegar liðið fékk FH í heimsókn á HS Orku-völlinn í í 17. umferð deildarinnar í kvöld. Lokatölur urðu 4-3 fyrir FH í heldur betur kaflaskiptum leik. 

Ariela Lewis, sem gekk til liðs við Keflavík frá Aftureldingu í vikunni, stimplaði sig rækilega inn í Keflavíkurliðið í þessum leik. Tilkoma hennar og Simonu Rebekku Meijer gjörbreytir dýnamíkinni í liði Keflavíkur og það var mikill kraftur í heimakonum í fyrri hálfleik.

Keflavík komst í 3-0 eftir hálftíma leik en Lewis skoraði tvö marka heimakvenna og Saorla Lorraine Miller bætti þriðja markinu við. Leikmenn Keflavíkur höfðu fyrir þennan leik skorað 12 mörk í fyrstu 16 leikjum sínum í deildinni í sumar en í kvöld opnuðust allar flóðgattir og mörkunum rigndi inn í votviðrinu suður með sjó.

Það var aftur á móti ekki svipur hjá sjón að sjá FH-liðið í fyrri hálfleik en það stóð ekki steinn yfir steini í varnarleik liðsins. Liðið stillti upp í þriggja manna varnarlínu með fjóra leikmenn inni á miðsvæðinu. Kantarnir voru af þeim sökum ansi opnir í þessum leik og það nýttu Keflavíkurkonur sér til fullnustu framan af leiknum.

Leikurinn snérist við í seinni hálfleik

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, gerði þrefalda skiptingu í hálfleik en Andrea Marý Sigurjónsdóttir, Selma Sól Sigurjónsdóttir og Hildur Katrín Snorradóttir leystu Hönnu Kallmeier, Thelmu Karen Pálmadóttur og Jónínu Linnet af hólmi. Guðni gerði samfara þessu taktíska breytingu á liði sínu sem gekk svo sannarlega upp.

Það kveikti heldur betur líf í gestunum að fá vel valin orði í eyra frá Guðna og Snædis María Jörundsdóttir klóraði í bakkann með góðu marki í upphafi seinni hálfleiks.

Hildur Katrín stangaði svo boltann í netið eftir hornspyrnu Hildigunnar Ýrar Benediktsdóttur um miðbik seinni hálfleiks og sá til þess að það var mikil spenna síðustu 20 mínútur leiksins.

Undir lok leiksins jafnaði síðan Elísa Lana Sigurjónsdóttir metin með marki sínu beint úr hornspyrnu. Það var svo Breukelen Lachelle Woodard sem fullkomnaði endurkomu FH-liðsins með stórglæsilegu marki þegar skammt var eftir af leiknum.

FH siglir lygnan sjó um miðja deild en liðið hefur 25 stig í fimmta sæti. Keflavík er hins vegar áfram á botni deildarinnar með níu stig líkt og Fylkir. Keflavík vermir botnsætið þar sem liðið hefur lakari markatölu en Fylkisliðið. Tindastóll er svo í sætinu fyrir ofan fallsvæðið með 12 stig. Fram undan er hörð barátta þessara liða um að halda sæti sínu í deildinni.   

Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, á hliðarlínunni í leik hjá liðinu. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Jonathan Glenn: Margar skrýtnar ákvarðanir hjá dómaranum

„Við hefðum vissulega getað spilað betur í seinni hálfleik en mér fannst fyrsta markið sem þær skoruðu vendipunktur í leiknum. Í aðdraganda þess marks gerir dómarinn mistök og það voru ein af fjölmörgum mjög skrýtum ákvörðunum hans í leiknum. Þetta mark breytti gangi leiksins og kom þeim á bragðið,“ sagði Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, að leik loknum. 

„Þetta hefur verið saga okkar í sumar að við spilum vel en erum ekki að ná í úrslit. Ef að við ætlum að halda sæti okkar í deildinni þá verðum við að klára svona leiki og sigla sigrunum í höfn. Það er orðið þreytt að tala um að spila vel en fá ekki stig,“ sagði Glenn enn fremur. 

„Ariela Lewis kom sterk inn í þennan leik  og spilamennska hennar er einn af fjölmörgum jákvæðum hlutum sem við getum tekið úr þessum leik. Nú er það bara að halda áfram að spila svona vel og ná að nýta okkur til þess að hala inn stigum,“ sagði hann um nýjasta leikmann sinn. 

Guðni Eiríksson: Læt þær aðeins heyra það í hálfleik

„Við vorum ofboðslega flatar í fyrri hálfleik og mikið andleysi í liðinu. Við fórum vel yfir hlutina í hálfleik og ég læt þær aðeins heyra það. Við gerðum þrefalda skiptingu í hálfleik og hugarfarið var allt annað í seinni hálfleik,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, um þróun leiksins. 

„Það var gaman að sjá svona gott viðbragð og það þarf karakter til þess að snúa taflinu við á erfiðum útivelli. Aðstæður voru erfiðar í þessum leik og það hefði verið auðvelt að kasta bara inn hvíta handklæðinu í hálfleik en við gerðum það klárlega ekki og ég er sáttur við það,“ sagði Guðni þar að auki. 

„Varamennirnir sem komu inn bæði í hálfleik og í seinni hálfleik skiptu sköpum og það gleður þjálfarahjartað að sjá það. Við skoruðum þrjú gegguð mörk og förum kampakát heim í Hafnarfjörðinni,“ sagði hann brosmildur. 

Guðni Eiríksson var sáttur við seinni hálfleikinn. Vísir /Anton Brink

 

Atvik leiksins

Sigurmarkið sem Breukelen skoraði var jarðaberið á kökuna í frábærum seinni háfleik hjá FH-liðinu. Mörkin sem skoruð voru í þessum leik voru í öllum regnbogans litum en markið sem skildi liðin að bar af og var bæði þýðingamikið og glæsilegt. 

Stjörnur og skúrkar

Elísa Lana og Hildigunnur Ýr voru góðar inni á miðsvæðinu og Hildur Katrín átti afar góða innkomu inn í seinni hálfleikinn. Breukelen hafði lítið haft sig í frammi þar til hún gerði það sem framherji á að gera. Skora mörk sem skipta máli. 

Ariela Lewis setur brodd í sóknarleik Keflavík sem hefur ekki verið fugl né fiskur hingað til í sumar. Innkoma hennar í liðið gæti orðið gulls ígildi í fallbaráttu liðsins. Melanie Claire Rendeiro var spræk á kantinum og var ógnandi í leiknum. 

Dómarar leiksins

Stefán Ragnar Guðlaugsson og teymi hans tóku nokkrar ákvarðanir í þessum leik sem orkuðu tvímælis og fá þar af leiðandi sex í einkunn fyrir frammistöðu sína. 

Stemming og umgjörð

Það var þokkalega mætt í Keflavík í kvöld og stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra. Nokkrir þeirra létu Stefán Ragnar, dómara leiksins, fara vel í taugarnar á sér og beitt full miklum krafti í að leiðbeina honum við dómgæslu í stað þess að hvetja sitt lið. Annars flestir léttir í leiðinlega haustveðri. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira