Íslenski boltinn

Óskar Hrafn tekur strax við KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson stýrir KR í fyrsta sinn gegn Vestra á laugardaginn.
Óskar Hrafn Þorvaldsson stýrir KR í fyrsta sinn gegn Vestra á laugardaginn. vísir/hulda margrét

Enn og aftur hafa orðið vendingar á Meistaravöllum því Óskar Hrafn Þorvaldsson er tekinn við þjálfun karlaliðs KR í fótbolta.

Fótbolti.net greinir frá þessu í dag.

Í byrjun þessa mánaðar var greint frá því að Óskar tæki við KR eftir tímabilið. Fram að því yrði hann aðstoðarmaður Pálma Rafns Pálmasonar sem hefur stýrt KR síðan Gregg Ryder var látinn fara í júní.

Pálmi og Óskar voru saman á hliðarlínunni þegar KR vann FH, 1-0, á mánudaginn. Það var fyrsti sigur KR-inga frá 20. maí og fyrsti heimasigur þeirra á tímabilinu.

Óskar sneri aftur til KR í sumar eftir stutt stopp hjá Haugesund í Noregi. Fyrst í stað var hann í hlutverki ráðgjafa hjá knattspyrnudeild KR og svo var hann ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. Nú er hann hins vegar orðinn þjálfari og stýrir KR í fyrsta sinn gegn Vestra á Ísafirði á laugardaginn.

Óskar var áður þjálfari Gróttu, og kom liðinu upp um tvær deildir á tveimur árum, og Breiðabliks sem hann gerði að Íslandsmeisturum 2022 og kom í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fyrra.

KR er í 9. sæti Bestu deildarinnar með átján stig eftir sautján leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×