Bandaríska sundkonan Katie Ledecky vann tvenn gullverðlaun og alls fern verðlaun á Ólympíuleikunum í París. Hún varð um leið sigursælasta bandaríska íþróttakonan í sögu Ólympíuleikanna.
Seinna gullið var hennar níunda á Ólympíuleikum en hún vann ein gullverðlaun í London 2012, fern á Ólympíuleikum í Ríó 2016 og tvenn á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021.
Myndbandið fór á flug
Myndband með Ledecky og NBA goðsögninni Michael Jordan fór á mikið flug eftir að hún tryggði sér gullverðlaun í París. Þar má sjá Jordan stríða henni þegar Ledecky er aðeins tveggja ára gömul og stödd í heiðursstúkunni á leik með Washington Wizards.
Ledecky var spurð út í myndbandið með henni og Jordan.
„Jon frændi minn var einn af eigendum Washington Capitals á þessum tíma. Við vorum þarna á leik með Wizards og stödd í eigendastúkunni,“ sagði Ledecky.
„Michael Jordan var þarna líka því hann var hluti af eigendahópi Washington Wizards á þessum tíma. Ég var bara að borða poppkornið mitt og Jordan fór að leika við mig í gjugg í borg [peekabo]. Ég lét það ekkert trufla mig og hélt bara áfram að borða poppkornið mitt,“ sagði Ledecky.
Vissi hver hann var
„Hann setti líka hendina fyrir muninn á mér til að reyna að koma í veg fyrir að ég kæmi poppkorninu upp í munninn,“ sagði Ledecky. Hún bendir á það að það má sjá líka að hún er spurð hvort hún viti hver þetta sé og að hún hafi svarað Michael Jordan.
„Ég gerði mér alveg grein fyrir því hversu merkilegur hann var og hver hann var. Ég vil líta þannig á að hann hafi veitt mér innblástur og smitað mig aðeins af hans mikilfengleika. Það var mjög gott fyrir mig að fá að umgangast frábært íþróttafólk frá unga aldri,“ sagði Ledecky.
„Þetta er mjög fyndið myndband og ég held að það hafi líka vakið athygli á sínum tíma áður en einhver vissi hver ég var,“ sagði Ledecky.