Sport

Finnst mjög ó­rétt­látt að bronsið sé tekið af henni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Chiles fagnar bronsinu sínu með Simone Biles eftir að úrslitunum var breytt. Sú breyting á skorinu hefur nú verið dregin til baka.
Jordan Chiles fagnar bronsinu sínu með Simone Biles eftir að úrslitunum var breytt. Sú breyting á skorinu hefur nú verið dregin til baka. Getty/Mehmet Murat Onel

Bandaríska fimleikakonan Jordan Chiles fékk bronsverðlaun fyrir æfingar á gólfi á Ólympíuleikunum í París en henni hefur nú verið gert að skila bronsverðlaunum sínum.

Chiles gerði athugasemd við of lágan erfiðleikastuðul fyrir æfingu sína sem varð til þess að hún hoppaði úr fimmta sæti upp í það þriðja. Alþjóðaíþróttadómstóllinn felldi þá breytingu úr gildi þar sem að beiðni hennar kom nokkrum sekúndum of seint.

Chiles skrifaði pistil á samfélagsmiðlum þar sem hún fór yfir allt málið og hvernig henni líður eftir að hafa fengið þessar leiðinlegu fréttir. Hún gerði ekkert rangt og er í raun fórnarlamb mistaka annarra.

„Ég á engin orð. Mér finnst þessi ákvörðun vera mjög óréttlát og hún er áfall fyrir mig og alla þá sem hafa fagnað þessum árangri mínum með mér. Ofan á sorgina hafa síðan bæst við árásir á samfélagsmiðlum sem eru bæði rangar og ákaflega særandi,“ skrifaði Chiles.

Hún telur að árásirnar komi til vegna hörundslitar hennar og þeirri staðreynd að allir þrír verðlaunahafarnir á pallinum hafi verið svartar.

Chiles er ekki búin að gefa upp alla von um að hún fái að halda bronsinu.

„Ég mun nálgast þessa áskorun eins og aðrar sem ég hef glímt við. Ég mun gera allt til þess að réttlætinu verði fullnægt. Ég trúi því að við enda þessa ferðalags þá hafi fólkið sem ræður gert það rétta í stöðunni,“ skrifaði Chiles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×