Þessi lið hafa barist um titla í marga áratugi og eiga sér langa sögu. Þau hafa unnið sitt hvorn leikinn í deildinni í sumar og dagsformið mun skipta sköpum í kvöld.
„Að stilla spennustigið er stór þáttur, æfa vel og vera með létt andrúmsloft en fyrst og fremst halda áfram að gera það sem við erum búnar að vera að gera í deildinni. Þessi lið eru á góðu skriði bæði tvö þannig að við eigum bara von á frábærum leik.
Það er nú yfirleitt þannig þegar þessi lið mætast að við þekkjum hvort annað algjörlega út og inn. Þessir leikir ráðast oft á smáatriðum og dagsformi liðanna. Við mætum vel gíraðar inn í leikinn og reynum að spila okkar fótbolta, þá erum við allavega að auka líkurnar á því að við lyftum bikarnum.“
Von á betra veðri og meiri rómantík
Leikir liðanna í deildinni hafa farið fram í mikilli rigningu og roki. Það lítur allt út fyrir betri aðstæður í kvöld og mögulega fylgir því fallegri fótbolti.
„Mér hefur samt fundist stelpurnar hafa staðið sig ótrúlega vel þrátt fyrir afleitar veðuraðstæður í síðustu tveimur leikjum. Sýnt góð gæði inn á milli en jú, ég er alveg til í að fá einn rómantískan úrslitaleik á Laugardalsvelli í góðu veðri.“
Bikarinn afhentur uppi í stúku
Nýjung verður tekin upp eftir leik í kvöld. Verðlaunaafhendingin fer ekki fram niður við hlaupabraut heldur uppi í stúku við hlið áhorfenda.
„Það kemur okkur í meiri nánd við stuðningsfólkið og það er fólkið sem við treystum mest á. Ekki bara fyrir Valsara heldur líka fyrir Blika. Við viljum sjá fulla, rauða og græna, stúku.“
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Bikarúrslitaleikur Vals og Breiðabliks hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Miðasala fer fram hjá Tix.