Upp­gjörið og við­töl: Valur - Fylkir 2-0 | Bikarmeistararnir höfðu betur

Andri Már Eggertsson skrifar
453416518_10161442367922270_6252603002527387806_n
vísir/ernir

Nýkrýndir bikarmeistarar Vals höfðu betur gegn Fylki 2-0. Staðan var jöfn fram að 82. mínútu en þá braut Lillý Rut Hlynsdóttir ísinn og Helena Ósk Hálfdánardóttir bætti við öðru marki í uppbótartíma. 

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, sagði í viðtali fyrir leik að fyrsti leikur eftir að liðið hafi orðið bikarmeistari gæti orðið vafasamur og það var svo sannarlega rétt hjá honum. Valskonur voru í miklum vandræðum með að skapa sér færi en héldu þó töluvert betur í boltann.

Eftir tæplega fjörutíu mínútur af engu þá fóru heimakonur að fá betri færi. Fanndís Friðriksdóttir fékk besta færi fyrri hálfleiks þar sem Hailey Whitaker átti frábæra sendingu inn fyrir vörn Fylkis og á Fanndísi en Tinna Brá Magnúsdóttir kom út úr markinu og lokaði á hana.

Staðan í hálfleik var 0-0.

Tinna Brá hélt áfram að láta ljós sitt skína. Eftir klukkutíma leik fékk Jasmín Erla Ingadóttir dauðafæri. Fanndís renndi boltanum fyrir markið og Jasmín átti skot nálægt markinu en Tinna Brá gerði frábærlega í að loka á hana.

Það dró til tíðinda á 82. mínútu þegar Lillý Rut Hlynsdóttir braut ísinn og heimakonur náðu loksins að koma boltanum framhjá Tinnu Brá. Fanndís átti frábæra sendingu á Lillý sem gerði vel í að leggja boltann fyrir sig og þrumaði knettinum í markið.

Í uppbótartímanum bætti Helena Ósk Hálfdánardóttir við öðru marki Vals og innsiglaði 2-0 sigur heimakvenna.

Atvik leiksins

Markvarsla Tinnu Brár Magnúsdóttur í stöðunni 0-0 eftir tæplega klukkutíma leik var frábær. Jasmín Erla Ingadóttir stakk sér á milli hafsenta Fylkis og fékk sendingu inn í markteig en Tinna varði frábærlega og hélt Fylki á floti en Valskonur náðu þó að brjóta ísinn á 82. mínútu. 

Stjörnur og skúrkar

Fanndís Friðriksdóttir var líflegust í sóknarleik Vals. Fanndís var að gera vel í að koma boltanum í teiginn og á endanum skilaði það sér í stoðsendingu.

Tinna Brá Magnúsdóttir, markmaður Fylkis, átti ekki skilið að tapa þessum leik. Hún var frábær í markinu og hélt sínu liði á floti.

Sóknarleikur Vals var afar bitlaus og fyrir utan Fanndísi Friðriksdóttur gerðist lítið fram á við. Ísabella Sara Tryggvadóttir og Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir voru teknar af velli á 58. mínútu. Jasmín Erla Ingadóttir misnotaði einnig dauðafæri.

Dómarinn

Reynir Ingi Finnsson dæmdi leik kvöldsins. Reynir komst vel frá sínu og átti flottan leik á flautunni. Reynir fær 8 í einkunn. 

Stemning og umgjörð

Það var rjómablíða á N1-vellinum þegar bikarmeistarar Vals fengu Fylki í heimsókn. Það var ansi létt yfir Pétri Péturssyni, þjálfara Vals, sem var með aflitað hár þar sem hann hafði gefið það loforð ef Valskonur yrðu bikarmeistarar.

„Þær skoruðu draumamark til þess að brjóta ísinn“

Gunnar Magnús Jónsson var stoltur af Fylkisliðinu Vísir/HAG

 Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis, var svekktur eftir 2-0 tap gegn Val.

„Ég er ótrúlega stoltur af stelpunum og þetta var til fyrirmyndar. Þær voru ekkert að opna okkur og ég man ekki eftir mörgum færum og þær skoruðu draumamark til þess að brjóta ísinn. Mér fannst stelpurnar sýna það í dag að þær báru enga virðingu fyrir andstæðingnum,“ sagði Gunnar og hélt áfram.

„Við lögðum leikinn svona upp og við vildum verjast vel gegn liði eins og Val. Fyrir þessa umferð hafði aðeins Valur og Breiðablik fengið á sig færri mörk en við í seinni umferðinni sem þýðir að varnarleikurinn okkar er að lagast en við þurfum að skora meira. Í svona leik fórum við auðvitað í að loka öllu.“

Aðspurður út í breytingar Vals í seinni hálfleik fannst Gunnari ekki það skipta miklu máli þó Valur hafi farið í þriggja manna varnarlínu.

„Það breyttist ekki mikið fannst mér. Markið sem þær skora var mjög flott og eftir að við lentum undir fórum við ofar á völlinn og fengum annað í bakið. Við erum mikið að hugsa út í markatöluna og hvert mark telur,“ sagði Gunnar að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira