Sport

Sá efsti féll tví­vegis á lyfja­prófi en sleppur án refsingar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hinn ítalski Sinner fær þó ekki að halda stigunum né verðlaunafénu sem hann vann sér inn á Indian Wells-mótinu.
Hinn ítalski Sinner fær þó ekki að halda stigunum né verðlaunafénu sem hann vann sér inn á Indian Wells-mótinu. EPA-EFE/MARK LYONS

Jannik Sinner, efsti maður heimslistans í tennis, verður ekki refsað þó svo hann hafi tvívegis fallið á lyfjaprófi með stuttu millibili.

Hinn ítalski Sinner féll tvisvar á lyfjaprófi í mars á þessu ári þegar hann tók þátt á Indian Wells-mótinu. Í bæði skiptin mældist örlítið magn af clostebol sem er steri sem hefur verið notað til að byggja upp vöðvamassa.

Upphaflega var Sinner dæmdur í tímabundið keppnisbann en mótmælti ákvörðuninni og fékk að halda áfram keppni.

Nú hefur ITIA, alþjóðleg siðanefnd í tennis, komist að því að efnið komst í líkama Sinner án vitundar hans. Þannig er mál með vexti að sjúkraþjálfari hans, Giacomo Naldi, keypti sprey til að nota sjálfur en téð sprey innihélt clostebol.

Svo virðist sem Naldi hafi ekki þvegið sér um hendurnar og eftir meðhöndlun sjúkraþjálfarans á Sinner var efnið komið inn í blóðrás hans.

ITIA tók þessa skýringu góða og gilda en ákvað samt að taka heimslistastigin sem og verðlaunaféð sem Sinner vann sér inn á Indian Wells-mótinu af kappanum. Ekki kemur fram í frétt BBC af hverju það var gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×