Innherji

Eyjólfur Árni og Rann­veig Rist koma ný inn í stjórn Klíníkurinnar

Hörður Ægisson skrifar
Ný stjórn var kjörin hjá Klíníkini í gær: Hrólfur Einarsson, Eyjólfur Árni, Rannveig Rist, Hjálmar Þorsteinsson og Aðalsteinn Arnarson. 
Ný stjórn var kjörin hjá Klíníkini í gær: Hrólfur Einarsson, Eyjólfur Árni, Rannveig Rist, Hjálmar Þorsteinsson og Aðalsteinn Arnarson. 

Á aðalfundi Klíníkurinnar, sem starfrækir einkarekna skurðaðgerðarþjónustu í Ármúla, í gær voru þau Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Rannveig Rist, forstjóri ISAL-álversins í Straumsvík, kjörin ný inn í stjórn félagsins. Eyjólfur Árni, sem verður jafnframt stjórnarformaður Klíníkurinnar, segir það vera grundvallaratriði að fyrirtæki eins og Klíníkin fái að þróast í takt við þær breytingar sem eru að verða heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Lögmaðurinn Gestur Jónsson, lögmaður á Mörkinni um árabil, lét af störfum sem stjórnarformaður Klíníkurinnar eftir fimm ára starf og Helena Sveinsdóttir, læknir, fór sömuleiðis úr stjórninni á fundinum í gær.

Fyrir í stjórninni eru þau Aðalsteinn Arnarson, Hjálmar Þorsteinsson og Hrólfur Einarsson en þau eru öll starfandi læknar hjá Klíníkinni og jafnframt meðal hluthafa félagsins.

Eyjólfur Árni, sem er í dag meðal annars stjórnarmaður Eikar fasteignafélags og var um langt skeið forstjóri Mannvits og forvera þess fyrirtækis, segir jafnframt í frétt á vefsíðu félagsins um stjórnarbreytingarnar að með aukinni fólksfjölgun vaxi þarfir samfélagsins. „Ég er spenntur að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni þar sem velferð sjúklinga er alltaf í fyrirrúmi.“

Það er grundvallaratriði að fyrirtæki eins og Klíníkin þróist í takt við breytingar á heilbrigðisþjónustu landsins.

Á árinu 2022 – ársreikningur síðasta árs hefur ekki verið gerður opinber – námu rekstrartekjur Klíníkurinnar samtals um 2,6 milljörðum og jukust þá um ríflega 30 prósent milli ára. Fyrirtækið, sem er núna að stækka húsnæði sitt í Ármúla, skilaði það ár hagnaði upp á um 217 milljónir eftir skatt.

Rannveig Rist, sem hefur stýrt álverinu í Straumsvík frá árinu 1997 og setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, verður nýr varaformaður stjórnar en hún segir að Klíníkin hafi fest sig í sessi sem mikilvægur hluti heilbrigðiskerfisins á Íslandi. „Framundan eru spennandi tímar tengdir þróun starfseminnar, fjölbreyttara þjónustuframboði og áframhaldandi uppbyggingu á grunni ánægðra starfsmanna og skjólstæðinga.“

Í byrjun þessa árs tók Guðrún Ása Björnsdóttir, sérfræðilæknir, við sem nýr framkvæmdastjóri Klíníkurinnar eftir að hafa þá verið faglegur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Áður var hún meðal annars formaður Félags almennra lækna og setið í stjórn Læknafélags Íslands.

Hjá Klíníkinni starfa 23 sérfræðilæknar og 47 hjúkrunarfræðingar og aðrir sérhæfðir starfsmenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×