Sport

Fimm­faldur Ólympíu­fari kafnaði í í­búð sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniela Larreal Chirinos í keppni á sínum fimmtu og síðustu Ólympíuleikum í London 2012.
Daniela Larreal Chirinos í keppni á sínum fimmtu og síðustu Ólympíuleikum í London 2012. Getty/Bryn Lennon

Fyrrum afreksíþróttakonan Daniela Larreal Chirinos er látin aðeins fimmtug að aldri. Hún lifði viðburðaríku lífi en endalokin voru mjög sorgleg.

Lýst var eftir Danielu þegar hún kom ekki til vinnu sinnar 12. ágúst síðastliðinn. Hún fannst síðan látin í íbúð sinni í Las Vegas fjórum dögum síðar.

Dánarorsök hefur ekki verið gerð opinber en lögreglan telur að hún hafi kafnað eftir að matur festist í koki hennar. Talið er að hún hafi látist 11. ágúst en hún fannst ekki fyrr en næstum því viku síðar.

Daniela er goðsögn í íþróttasögu Venesúela en hún keppti í hjólreiðum frá 1992 til 2012.

Hún fór meðal annars fimm sinnum á Ólympíuleika en náði þó aldrei að vinna til verðlauna. Ólympíuleikarnir hennar voru í Barcelona 1992, Atlanta 1996, Sydney 2000, Aþenu 2004 og London 2012.

Hún varð heimsbikarmeistari árið 2003 [UCI Track Cycling World Cup] og vann tvenn gullverðlaun á Ameríkuleikunun árið 2011 [Pan American Games]. Auk þess var hún mjög sigursæl í hjólreiðakeppnum í Mið- og Suður-Ameríku þessa tvo áratugi sem hún tók þátt í afreksíþróttum.

Daniela var líka mjög virk í pólitíkinni í heimalandi sínu,  og varð á endanum gerð útlæg frá Venesúela árið 2016. Hún sótti í framhaldinu um pólitískt hæli í Bandaríkjunum.

Hún þurfti að byrja upp á nýtt í Bandaríkjunum, keyrði um tíma Uber í Miami og starfaði nú síðast sem þerna á hóteli í Las Vegas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×