Innherji

Festa kaup á tuttugu prósenta hlut í norska líf­tækni­fyrir­tækinu Regenics

Hörður Ægisson skrifar
Forsvarsmenn Nordic Blue og IS Haf: Kristrún Auður Viðarsdóttir, Jan Alfheim, Karin Gilljam, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Brynjólfur Gísli Eyjólfsson.
Forsvarsmenn Nordic Blue og IS Haf: Kristrún Auður Viðarsdóttir, Jan Alfheim, Karin Gilljam, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Brynjólfur Gísli Eyjólfsson.

Sérhæfður fjárfestingarsjóðir í haftengdri starfsemi og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, ásamt hópi fleiri innlendra fjárfesta, hefur klárað samning við Regenics AS um að leggja norska líftæknifyrirtækinu til nýtt hlutafé og eignast um leið tuttugu prósenta hlut í félaginu. Fjárfestingin í fyrirtækinu, sem vinnur að þróun á sárameðhöndlunarvörum úr laxahrognum, gæti numið yfir 50 milljónum norskra króna.

Kaupin eru gerð í gegnum hið nýstofnaða hlutafélag Nordic Blue en stærsti hluthafinn þar er framtakssjóðurinn IS Haf fjárfestingar, tíu milljarða sjóður í rekstri Íslandssjóða sem fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni. Helstu hluthafar framtakssjóðsins eru Útgerðarfélag Reykjavíkur, Brim og lífeyrissjóðirnir Birta, LSR og Frjálsi.

Brynjólfur Gísli Eyjólfsson, sjóðstóri hjá IS Haf fjárfestingu, segir það spennandi að leggja af stað í þessa vegferð með Regenics en félagið falli einkar vel að áherslum sjóðsins varðandi fjárfestingar á sviði sjávarlíftækni.

„Við teljum að Regenics hafi byggt upp góðan grunn og hafi gríðarlega möguleika til frekari þróunar á sviði sárameðhöndlunar. Samstarf við reynda fjárfesta í lyfja- og líftæknigreinum er afgerandi fyrir fjárfestingu sem þessa og við hlökkum til vegferðarinnar framundan.“

Ásamt IS Haf og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja samanstendur hluthafahópurinn að baki Nordic Blue af öflugum fjárfestum sem hafa meðal annars þekkingu á húðlækningum og þróun lyfja. Þar á meðal er Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, fyrrverandi forstjóri Actavis, en hún situr í stjórn Nordic Blue.

Í tilkynningu til hluthafa IS Haf-sjóðsins kemur meðal annars fram að Regenics framleiðir Collex®, háþróaðar sáraumbúðir, sem eru hannaðar til að bæta og flýta gróanda brunasára og langvinnra sára, þar með talin sár vegna sykursýki. Með Collex stefnir Regenics að því að umbreyta hefðbundnum aðferðum í sárameðferð en hráefnið er að öllu leyti unnið úr hráefni úr hafinu. HTX er lífvirka efnið í Collex og er unnið úr ófrjóvguðum laxahrognum.

Fjárfestingin frá Nordic Blue í Regenics, sem tryggir félaginu tuttugu prósenta hlut, nemur í upphafi um 20,4 milljónum norskra króna, jafnvirði um 270 milljónir íslenskra króna. Samtals er um að ræða ríflega 2,5 milljónir útgefna nýja almenna hluti að nafnvirði á genginu 8,1 norsk króna á hvern hlut. Þá hefur Nordic Blue sömuleiðis kauprétt að um 3,8 milljónum hluta til viðbótar á genginu 9 krónur á hlut, eða fyrir samtals um 34 milljónir norskra. Nýti félagið sér þann kauprétt þá gæti samanlögð fjárfesting í Regenics numið um 54 milljónum norskra króna, eða jafnvirði um 700 milljónir íslenskra króna.

Við teljum að Regenics hafi byggt upp góðan grunn og hafi gríðarlega möguleika til frekari þróunar á sviði sárameðhöndlunar.

Fjárfestahópurinn að baki Nordic Blue hefur mótað vegferð í samvinnu við stjórnendur Regenics og verður hlutaféð meðal annars nýtt í klínískar og forklíniskar rannsóknir, styrkingu teymis lykilstarfsfólks og vörðun á leið framleiðsluvara á markað. Í tengslum við kaupin hafa Nordic Blue og tveir stærstu hluthafar Regenics gert með sér hluthafasamkomulag. Norska félagið hefur þannig veitt Nordic Blue ákveðin réttindi, meðal annars tilnefningarrétt til tveggja stjórnarmanna í stjórn líftæknifyrirtækisins.

Innherji hefur áður greint frá fjárfestingum IS Haf-sjóðsins í ríflega helmingshlut í Thor Landeldi, sem áformar tuttugu þúsund tonna laxeldi í Þorlákshöfn, eins kaup á 40 prósenta eignarhlut í tæknifyrirtækinu KAPP.

Jan Alfheim, stjórnarformaður Regenics, segist vera spenntur að fá inn fjárfesta sem þekkja tækifærin sem felast í félaginu og vörum þess. „Fjárfesting þeirra og þátttaka í stjórn mun vera mikils virði fyrir Regenics og hjálpa okkur að koma okkar fyrstu vöru Collex® í fyrsta stig klínískra rannsókna í meðferð á brunasárum og áfram inn á markað.“

Þá er haft eftir Guðbjörgu Eddu að það sé áhugavert að sjá hvað hafið búi yfir miklum leyndardómum, sem geta nýst í heilbrigðisgeiranum. „Regenics er að þróa sárameðferð, sem mikil þörf er fyrir í heiminum í dag. Það verður spennandi að fá að taka þátt í þeirri vegferð.“

Innherji greindi fyrst frá stofnun IS Haf í ársbyrjun 2023 en í krafti meðfjárfestinga hluthafa og annarra fjárfesta er áætlað að fjárfestingageta sjóðsins verði á bilinu 30 til 50 milljarðar. Fjárfestingum hans verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni. Sjóðurinn mun fjárfesta að mestu í óskráðum félögum á Íslandi eða félögum sem hafa tengingu við Ísland.


Tengdar fréttir

Setja á fót tíu milljarða sjóð sem horfir til haf­tengdra fjár­festinga

Íslandssjóðir hafa klárað fjármögnun á tíu milljarða króna sjóð sem áformar að fjárfesta í haftengdri starfsemi á breiðum grunni en fjárfestingargeta hluthafanna sem standa að baki sjóðnum nemur margfaldri stærð hans. Stærstu fjárfestarnir eru Brim og Útgerðafélag Reykjavíkur, með samanlagt yfir fjórðungshlut, ásamt íslenskum lífeyrissjóðum en að sögn forsvarsmanna sjóðsins er þörf á „miklu fjármagni“ til að virkja þá möguleika sem eru til vaxtar í íslenskum sjávarútvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×