Sport

Fimm ára keppnis­bann fyrir að detta viljandi af hest­baki

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alvinio Roy mun ekki stunda kappreiðar næstu fimm árin.
Alvinio Roy mun ekki stunda kappreiðar næstu fimm árin.

Alvinio Roy hefur verið dæmdur í fimm ára keppnisbann fyrir að glata viljandi forystu í kappreiðum með því að kasta sér viljandi af baki hestsins þegar hann var með forystuna. Talið er að hann hafi verið þátttakandi í veðmálasvindli.

Málið er furðulegt á margan hátt og útskýringar Alvinio þykja ófullnægjandi. Hann var með forystuna fyrir lokasprettinn í 1400 metra kappreiðum síðasta laugardag en eftir síðustu beygju brautarinnar féll hann skyndilega af baki.

Alvinio bar það fyrst fyrir sig hann væri að nota nýtt ístað, léttara en hann hefur áður verið með og fóturinn hafi runnið til. Dómnefnd tók þá útskýringu ekki í sátt og sagði ómögulegt að það væri ástæðan fyrir slíku falli.

Þá sagði Alvinio að hnakkur hans hafi verið laus og þess vegna hafi hann dottið. Dómnefnd benti honum þá á, að bæði væri það á hans ábyrgð að herða hnakkinn og ekkert í myndskeiðinu bendi til þess að hnakkurinn hafi verið laus.

Alvinio Roy var að endingu dæmdur í fimm ára keppnisbann fyrir spillingu, sviksamleg og óheiðarleg vinnubrögð. Talið er að hann hafi kastað sér viljandi af baki og ætlað að græða beint eða óbeint á því í gegnum veðmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×