Sport

Róbert Ísak í úr­slit í París

Valur Páll Eiríksson skrifar
Róbert Ísak verður í úrslitum seinni partinn.
Róbert Ísak verður í úrslitum seinni partinn. Mynd/Hvatisport

Sundmaðurinn Róbert Ísak Jónsson varð áttundi í undanrásum í 100 metra flugsundi í S14-flokki þroskahamlaðra á Ólympíumóti fatlaðra í París í morgun. Hann komst því í úrslit í greininni.

Fimmtán tóku þátt í greininni og var Róbert Ísak í seinni riðli morgunsins. Hann varð fimmti í bakkann í sínum riðli á 58,35 sekúndum, áttundi í heildina, og verður því á meðal þeirra átta sem keppa til úrslita seinni partinn.

Róbert var því tæpri sekúndu á undan Inkook Lee frá Suður-Kóreu sem var með níunda besta tíma keppendanna fimmtán, á 59,15 sekúndum.

Besti tími Róberts Ísaks er 58,06 sekúndur, sem er jafnframt Íslandsmet hans í greininni.

Bretinn William Ellard var á bestum tíma í morgun er hann synti metrana hundrað á 54,97 sekúndum. Alexander Hillhouse var sneggstur í riðli Róberts, á næst besta tíma morgunsins, 55,32 sekúndum.

Úrslitin í 100 metra flugsundi fara fram klukkan 16:35 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×