Veður

All­hvass vindur og mikil úr­koma vestan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Gular viðvaranir tóku gildi vegna úrhellisins á vestanverðu landinu í morgun og verða í gildi fram á laugardagskvöld.
Gular viðvaranir tóku gildi vegna úrhellisins á vestanverðu landinu í morgun og verða í gildi fram á laugardagskvöld. Vísir/Vilhelm

Lægðir á Grænlandshafi í samvinnu við hæð við Bretland munu beina hlýju og mjög röku lofti úr suðri til landsins á næstunni.

Í vef Veðurstofunnar segir að í dag sé spáð sunnan stinningskalda eða allhvössum vindi með súld eða rigningu og verði úrkoman talsverð á Snæfellsnesi, Breiðafirði og Vestfjörðum. 

Gular viðvaranir tóku gildi vegna úrhellisins á vestanverðu landinu í morgun og verða í gildi fram á laugardagskvöld.

Búast má við auknu afrennsi og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi og er fólk hvatt til að sýna aðgát og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Fram kemur að vætan nái hins vegar ekki yfir á Austurland. Þar verði hægari vindur og hiti getur náð að tuttugu stigum þegar best lætur.

„Á morgun er áfram stíf sunnanátt í kortunum. Áframhaldandi vætutíð vestanlands og bætir einnig verulega í rigningu á sunnanverðu landinu. Þurrir kaflar norðaustantil þar sem hiti getur náð í 20 stig í hnjúkaþey,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 18 í dag. Spáð er úrhelli vestantil en hlýju fyrir austan.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Sunnan og suðaustan 10-18 m/s og víða talsverð rigning, en úrkomulítið á norðaustanverðu landinu. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á sunnudag: Suðaustan 8-15 og rigning, en þurrt og bjart á norðaustanverðu landinu. Hiti breytist lítið.

Á mánudag: Suðlæg átt 3-10 með vætu sunnan- og vestanlands, en bjartviðri á Norðausturlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustantil.

Á þriðjudag: Vestan og norðvestanátt. Víða þurrt veður og bjart með köflum. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á miðvikudag og fimmtudag: Suðlæg átt með vætu af og til, en þurrt að mestu og hlýtt norðaustan- og austanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×