Sport

NHL stjarna og bróðir hans létust daginn fyrir brúð­kaup systur þeirra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurnir Johnny Gaudreau og Matthew Gaudreau létust báðir.
Bræðurnir Johnny Gaudreau og Matthew Gaudreau létust báðir. X

NHL leikmaðurinn Johnny Gaudreau lést ásamt yngri bróður sinum þegar keyrt var á þá í Salem County í New Jersey fylki á fimmtudaginn.

Gaudreau bræðurnir voru úti í hjólatúr þegar jeppi keyrði aftan á þá með þessum skelfilegu afleiðingum.

Hinn 31 árs gamli Johnny Gaudreau var leikmaður með NHL-liðinu Columbus Blue Jackets. Matthew, bróðir hans, var tveimur árum yngri.

Ökumaðurinn hefur verið kærður fyrir tvö manndráp. Hann var að auk þess kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis og að flýja slysstað. Hann heitir Sean Higgins og er 43 ára gamall. Higgins sagðist hafa drukkið fimm til sex bjóra.

Jeppinn keyrði aftan á bræðurna þegar hann var að keyra fram úr bíl sem hafði búið til pláss fyrir hjólreiðamennina tvo. Bræðurnir voru báðir úrskurðaðir látnir á staðnum.

Þetta átti að vera mikil gleðihelgi fyrir Gaudreau fjölskylduna því brúðkaup systur þeirra átti að fara fram daginn eftir slysið.

Bræðurnir voru því komnir til New Jersey til að taka þátt í brúðkaupi Katie en systkinin ólust öll upp á þessu svæði.

„Við viljum láta alla vita af því að við erum að fá allar kveðjurnar og við kunnum að meta þær sem og allar bænir ykkar. Við óskum eftir því að þið berið virðingu fyrir einkalífi okkar og gefið okkur áfram frið á þessum afar erfiða sorgartíma,“ sagði Jim Gaudreau, frændi þeirra í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×