Sonja fór fyrri fimmtíu metrana á 1:11,68 mínútu en lauk sundinu á 2:32,31 og hafnaði í sjötta sæti í sínum riðli.
Hún var um tíu sekúndum frá Íslandsmeti sínu og í 12. sæti í heildina, og náði því ekki að endurtaka leikinn frá því í gær með því að komast í úrslit.
Í gær komst Sonja í úrslit í 50 metra baksundi og hafnaði þar í sjöunda sæti á 1:07,46, og bætti Íslandsmet sitt um 36/100 úr sekúndu.
Sonja, sem er 34 ára og á sínu þriðja Ólympíumóti, er síðasti keppandi Íslands í París og sú eina sem keppir í tveimur greinum. Áður hafði Thelma Björg Björnsdóttir náð 6. sæti í 100 metra bringusundi og Már Gunnarsson 7. sæti í 100 metra baksundi, á nýju Íslandsmeti.
Róbert Ísak Jónsson tvíbætti Íslandsmetið í 100 metra flugsundi og varð þar í 6. sæti. Þá hafnaði Ingeborg Eide Garðarsdóttir í 9. sæti í kúluvarpi og missti naumlega af sæti í úrslitum.