„Það er gríðarlega góð tilfinning að vera kominn aftur inn á handboltavöllinn. Þetta hafa verið krefjandi mánuðir og mikil vinna að baki við að koma mér aftur í nógu gott líkamlegt form til þess að geta spilað handbolta,“ sagði Rut, sem kom til Hauka frá KA/Þór fyrir þetta keppnistímabil.
„Ég á ennþá svolítið í land að ná mínu fyrra formi en það kemur bara hægt og rólega. Mér líður mjög vel hérna á Ásvöllum og mér líst bara mjög vel á þetta tímabil. Markmiðið er klárt, það er að berjast um þá titla sem í boði eru,“ sagði þessi frábæri leikmaður.
„Haukaliðið hefur verið að gera góða hluti undanfarin ár og það eru hér ungir leikmenn með mikil gæði sem eiga mikla möguleika á að bæta sig. Vörnin var ógnarsterk að þessu sinni og þar fyrir aftan var Sara Sif mjög góð. Við getum tekið margt jákvætt úr þessum fyrsta leik,“ sagði Rut.