„Það er búið að taka húsnæðið alveg í gegn að innan og það er tilbúið fyrir nýja aðila til þess að innrétta það hlýlega,“ segir Árni Stefán Árnason eigandi húsnæðisins að Austurvegi 10. Hann hafði áður sent fréttastofu erindi þess efnis að „Hafnarfjarðarhreysið“ sem gerð hefðu verið „söguleg“ en „ósanngjörn“ skil á Vísi væri komið á sölu. Íbúi í húsinu öryrkinn Sigurbjörg Hlöðversdóttir sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í mars að hún óttaðist um líf sitt í húsinu.
Þar mátti víða sjá rafmagnsvíra standa út í loft, sag mátti finna á ýmsum stöðum í húsinu og þá vantaði hluta af gólfinu í svefnherbergi. Tvennum sögum fór af því hvort Árni hefði lofað betrumbótum eða ekki en íbúinn hélt því fram. Árni sagði sjálfur að húsnæðið hefði aldrei verið auglýst til langtímaleigu, heldur til skamms tíma til Grindvíkinga og sagði hann Sigurbjörgu hafa sett á svið leikrit í húsnæðinu.
„Það sem gerist í kjölfarið er að heilbrigðiseftirlitið gaf henni afarkosti um að fara, vegna þess að húsnæðið var réttilega ekki tilbúið til leigu og ég gerði þá kröfu eiginlega bara sjálfur,“ segir Árni. Hann segir endurbótum á húsnæðinu nú lokið.
Mikið minjagildi
Fasteignamat hússins er 55 milljónir en uppsett verð er 45 milljónir króna. Árni segir húsið hafa verið byggt árið 1913 og því sé það friðað, enda á stórmerkilegum stað í Hafnarfirði. Hann á von á ljósmyndara frá fasteignasölu í dag og segir húsið verða komið á fasteignavefi landsins innan skamms.
„Það er með nýja þakklæðningu og síðan verður það klætt að utan og hefur fengist styrkur í það frá Hafnarfjarðarbæ enda hefur húsið mikið minjagildi og á sinn þátt í að viðhalda þessum fallega svip á Austurgötu.“
Árni nefnir sem dæmi að í einungis tvö hundruð metra fjarlægð hafi sambærilegt hús selst á áttatíu milljónir. „Þannig ég er að bjóða rosalega sanngjarnt og fallegt verð.“
Hér að neðan ber að líta myndir úr húsinu úr safni Árna sem teknar eru eftir endurbætur.












