Sport

Hungrið enn til staðar hjá Gunnari: Með augun á næsta bar­daga

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnar Nelson stefnir á endurkomu í búrið.
Gunnar Nelson stefnir á endurkomu í búrið. Vísir/Getty

Ís­lenski bar­daga­kappinn Gunnar Nel­son er ekki á því að segja skilið við bar­daga­feril sinn alveg strax. Hann segir hungrið enn til staðar og þrátt fyrir hækkandi aldur segist hann enn vera að bæta sig.

Gunnar er orðinn 36 ára gamall og ferill hans í MMA teygir sig aftur til ársins 2007. Ís­lendingurinn hefur verið á mála hjá stærsta og þekktasta bar­daga­sam­bandi heims, UFC, síðan árið 2012 og ó­um­flýjan­lega nálgast hann enda­lok síns at­vinnu­manna­ferils sem getur jú ekki verið ei­lífur.

Þó er þessi braut­ryðjandi, sem vann yfirburðarsigur gegn Bandaríkjamanninum Bryan Barberena í mars á síðasta ári og er sem stendur á tveggja bardaga sigurgöngu í UFC, ekki að í­huga að leggja bar­daga­hanskana á hilluna alveg strax. Gunnar á endur­komu í búrið undir lok árs.

Bryan Barberena átti aldrei séns í Gunnar Nelson þegar þeir mættust á síðasta áriGetty/Catherine Ivill

„Ég er bara í mjög fínu formi,“ segir Gunnar Nelson í samtali við íþróttadeild Stöðvar 2 nýkominn af æfingu í Mjölni. „Ég er að koma mér upp í enn betra form. Ég get ekki æft allan ársins hring eins og ég geri fyrir camp. Annars yrði ég bara rúm­liggjandi. Ég er því að koma mér aftur af stað núna betur og betur og er að horfa á bardaga í kringum desember. Ég væri til í að keppa á því tíma­bili.“

Eftir því sem að liðið hefur á atvinnumannaferilinn hjá Gunnari hefur hann sífellt verið að taka enn stærra skref inn í þjálfun og hjá Mjölni er hann að leiðbeina ungum MMA bardagaköppum.

„Ég svona reyni að vera ekki að spá allt­of langt fram í tímann,“ segir Gunnar aðspurður hvernig hann sjái nánustu framtíð hjá sér á bardagaferlinum. „Jú hef lengi hugsað um að fara kalla þetta gott. Skrokkurinn er alveg farinn að segja til sín og núna lengi hef ég haft á­huga á tölu­vert öðrum hlutum heldur en endi­lega sjálfum mér í þessu dæmi. Þjálfun og svo­leiðis.

En mér finnst enn mjög gaman að keppa. Mig hungrar alltaf í það. Mér finnst það enn vera svo stór partur af mér sem einstaklingi í blönduðum bardagalistum að keppa. Ég fæ mig ekki í að stoppa það af alveg strax.“

Þannig að bardagahanskarnir eru ekki á leiðinni á hilluna? 

„Ekki alveg strax. Ég finn enn fyrir því að ég er að bæta mig. Þó skrokkurinn sé ekki enn tví­tugur þá er ég að verða betri og betri með hverju árinu.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×