Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að á morgun verði svo vaxandi austanátt og þá fari að rigna, fyrst sunnanlands. Samhliða því verður austan og suðaustan 10 til 18 metrar á sekúndu með rigningu í flestum landshlutum seinnipartinn, en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti verður á bilinu 6 til 12 stig.
Á þriðjudag snýst svo í suðvestan 5 til 13 metra á sekúndu með dálítilli vætu en þurrt að kalla austantil. Vaxandi austanátt með rigningu um mest allt land um kvöldið. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast fyrir austan. Nánar á vef Veðurstofunnar.
Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að vetrarfærð sé á vegum á Norðausturlandi og Austurlandi og þeir því ekki færir bílum sem ekki eru vetrarbúnir. Þá eru margir vegir á hálendi ófærir eða ekki vitað um ástand þeirra.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Gengur í austan og suðaustan 13-20 m/s, hvassast syðst. Víða rigning en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti 7 til 12 stig.
Á þriðjudag:
Suðaustlæg átt, víða 8-15 m/s og dálítil rigning í flestum landshlutum, en norðaustlægari norðvestantil. Hvessir heldur og bætir í rigningu um kvöldið. Hiti 8 til 14 stig, hlýjast austantil.
Á miðvikudag:
Suðaustlæg átt og rigning eða skúrir, en úrkomulítið á Norðausturlandi. Hlýtt í veðri.
Á fimmtudag:
Breytileg átt og skýjað en lengst af þurrt. Hiti 3 til 8 stig.
Á föstudag:
Austlæg átt og dálítil væta, en þurrt að kalla fyrir norðan og austan. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Útlit fyrir breytilega átt. Skýjað og víða úrkomulítið, en rigning á norðvestanverðu landinu. Hiti 5 til 10 stig.