Rafíþróttir

Sam­stilltir Þórsarar af­greiddu ryðgaða Böðla

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Selir, Tröll-Loop og Þór lögðu andstæðinga sína að velli í hressilegum leikjum í 2. umferð Tölvulistadeildarinnar í Overwatch.
Selir, Tröll-Loop og Þór lögðu andstæðinga sína að velli í hressilegum leikjum í 2. umferð Tölvulistadeildarinnar í Overwatch.

Þrír leikir fóru fram í 2. um­ferð Tölvu­lista­deildarinnar í Overwatch á laugar­daginn og að henni lokinni er lið Þórs í efsta sæti eftir 3-0 sigur á Böðlunum sem máttu sín ekki mikils gegn þéttum and­stæðingum sem hafa lengi spilað saman.

Annarri umferð Tölvulistadeildarinnar í Overwatch lauk með þremur leikjum á laugardaginn þar sem Selir sigrðuðu Dusty 3-1, Jötunn tapaði 0-3 gegn Tröll-Loop og Böðlar máttu lúta í lægra haldi gegn sterku liði Þórs, 0-3.

Þessi lokahnykkur 2. umferðar markaði einnig upphaf beinna útsendinga frá leikjum í Tölvulistadeildinni á þessu tímabili en þar stóðu þeir Ólafur Aðalsteinn Jónsson og Rúnar Freyr Einarsson vaktina og tóku stöðuna sem eins og í öllu alvöru sporti breytist vitaskuld með hverjum leik.

Lið Þórs er í efsta sæti deildarinnar eftir tvær umferðir og að hafa lagt Böðla fremur auðveldlega að velli um helgina. Lýsendurnir voru sammála um að sterkt lið Þórs nyti þess greinilega að hafa spilað saman lengi. Ólíkt andstæðingunum sem eru enn að finna taktinn eftir tvö 3-0 töp hingað til.

Böðlarnir Snær Björnsson og Björgvin Gunnar Björgvinsson voru engu að síður brattir að leik loknum og sögðust í viðtali við Ólaf og Rúnar enn vera jákvæðir þótt tímabilið hafi ekki byrjað vel hjá þeim. Þeir þurfi bara að skafa af sér mosann og ryðið.

Böðlarnir Snær og Björgvin Gunnar báru sig vel eftir tap gegn Þór í 2. umferð.

Böðlarnir hafi byrjað á tveimur erfiðum leikjum sem þeir muni draga lærdóm af og vitandi hvað þeir þurfi að gera muni þeir koma sterkari inn næst. 

„Við þurfum að tala meira saman og æfa samvinnuna,“ sagði Snær og bætti við að liðsmenn eigi eftir að læra betur hvor á annan og efla gagnkvæmt traust sín á milli.

Lið Þórs leiðir í Tölvulistadeildinni í Overwatch þegar tvær umferðir eru búnar.

Tengdar fréttir

Þór byrjar Ljósleiðaradeildina með látum

„Þetta var nú bara tiltölulega auðvelt,“ segir Ásmundur Viggósson, sem var í miklu stuði þegar Þór lagði Sögu í fyrstu umferð Ljósleiðaradeildarinnar í Counter Strike í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×