Körfubolti

„Mátti þetta ekki í Þýska­landi“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Hilmar Pétursson er mættur aftur í íslenska körfuboltann, eftir að hafa spilað í Þýskalandi.
Hilmar Pétursson er mættur aftur í íslenska körfuboltann, eftir að hafa spilað í Þýskalandi. Keflavík

Bikarmeistarar Keflavíkur tóku á móti Íslandsmeisturum Vals í Blue höllinni í kvöld þar sem Meistari Meistaranna í körfubolta karla fór fram. Það voru Keflvíkingar sem höfðu betur með tíu stiga mun 88-98.

„Tilfinningin er mjög góð. Ég spilaði hérna 2017, það gleymist oft en jú það er mjög gott að byrja tímabilið svona og setja smá „statement“ fyrir komandi tímabil,“ sagði Hilmar Pétursson „nýr“ leikmaður Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

Keflvíkingar eru stórhuga fyrir komandi átök í vetur og vonast til þess að þetta sé fyrsti titillinn af mörgum.

„Já, við setjum stefnuna á að vinna allt sem er í boði og það er gott að fá smá smakk fyrir þessu, smá tilfinningu.“

Keflavík ásamt Val er spáð efstu sætum í spá fyrirliða og þjálfara fyrir komandi tímabil og eru liðin til að vinna.

„Engin spurning. Valur var mjög þunnskipað en það má samt ekki vanmeta þá því þeir eru með einn af bestu íslensku kjörnum í deildinni og landsliðsmenn. Það er mjög gott að sigra svona lið og fara með sigur inn í tímabilið.“

Keflvíkingar eru að koma heldur betur vel undan sumrinu og það eru allir ferskir í Keflavík.

„Það er bara flott. Það eru allir ferskir og ég þarf að venjast því að skjóta mikið af þriggja stiga því ég mátti það ekki í Þýskalandi en þetta er allt að koma.“

Hilmar Pétursson er ekki í nokkrum vafa um að þetta Keflavíkurlið geti farið alla leið.

„Við ætlum bara alla leið, punktur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×