Formúla 1

Schumacher sást meðal fólks í fyrsta sinn í ellefu ár

Sindri Sverrisson skrifar
Michael Schumacher, sem er orðinn 55 ára gamall, varð sjö sinnum heimsmeistari í Formúlu 1.
Michael Schumacher, sem er orðinn 55 ára gamall, varð sjö sinnum heimsmeistari í Formúlu 1. Getty/Lars Baron

Fyrrverandi Formúlu 1 ökuþórinn Michael Schumacher var viðstaddur brúðkaup dóttur sinnar á Mallorca á Spáni um helgina og sást þar meðal fólks í fyrsta sinn í ellefu ár.

Schumacher lenti í skelfilegu slysi í desember 2013 þegar hann var á skíðum í frönsku Ölpunum, er hann féll og skall með höfuðið í stein. Hann lifði slysið af en var í dái. Hann var fluttur á heimili sitt í Sviss í september 2014 en síðan þá hefur ríkt mikil leynd um ástand þessa sjöfalda heimsmeistara.

Gestum skipað að láta frá sér síma

Spænskir og þýskir miðlar greina hins vegar frá því að Schumacher hafi nú í fyrsta sinn frá slysinu sést á meðal fólks, vegna brúðkaups dóttur sinnar Ginu-Mariu. Hún giftist Iain Bethke á laugardaginn í glæsilegri villu fjölskyldunnar á Mallorca. Villan var áður í eigu Florentino Pérez, forseta Real Madrid.

Corinna, eiginkona Schumachers, hefur séð til þess að aðeins örfáir nánustu aðstandendur fái að heimsækja hann og þegar gestir mættu í brúðkaupið fengu allir skýr fyrirmæli um að láta frá sér síma og myndavélar.

Engar myndir af Schumacher hafa því birst opinberlega og spænska blaðið Marca segir það bæði gert til að forðast óæskilegar myndir sem og fjárkúganir. Því sé ekki vitað með hvaða hætti þátttaka hans í athöfninni hafi verið. Athöfnin hafi hins vegar verið tiltölulega stutt, eða um hálftími.

Einu myndirnar úr brúðkaupinu sem deilt hefur verið eru þær sem brúðurin, Gina-Maria, birti af sér og eiginmanninum.

Ralf og Mick meðal gesta

Á meðal annarra gesta í brúðkaupinu voru Ralf Schumacher, bróðir Michaels og fyrrverandi Formúlu 1 ökuþór, sem mætti með manni sínum Étienne eftir að hafa greint frá því opinberlega í sumar að hann væri samkynhneigður.

Mick Schumacher, sonur Michaels sem staldraði stutt við í Formúlu 1, var einnig mættur með dönsku fyrirsætunni Laila Hasanovic. Slúðurblöðin telja að stutt gæti verið í þeirra brúðkaup, eftir að Hasanovic birti mynd af demantshring á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×