Körfubolti

Gaz-leikur Pa­vels: Stans­laust djamm gegn bingó­kvöldi

Sindri Sverrisson skrifar
Helgi Már Magnússon og Pavel Ermolinskij skoða leik Álftaness og Keflavíkur með sínum hætti.
Helgi Már Magnússon og Pavel Ermolinskij skoða leik Álftaness og Keflavíkur með sínum hætti. Vísir

Pavel Ermolinskij ætlar ásamt félögum sínum að taka einn leik fyrir í hverri umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í vetur. Þeir Helgi Már Magnússon hituðu með hressilegum hætti upp fyrir leik Álftaness og Keflavíkur, og munu svo lýsa honum með sínum hætti á Stöð 2 BD í kvöld.

Upphitunarþáttinn má sjá hér að neðan og í beinu útsendingunni í kvöld má í raun búast við hverju sem er, frá stútfullum körfuboltaviskubrunnum.

„Ég myndi ímynda mér að þetta sé eins og að sitja á barnum, eða inni í stofu, með okkur að horfa á leikinn. Við grípum bara það sem okkur finnst áhugavert, og erum ekki að fara að taka einhverja „play by play“ lýsingu. Við greinum það sem við sjáum og ræðum, og mögulega ræðum við eitthvað allt annað,“ segir Helgi um beinu útsendinguna í kvöld.

Komið er að fyrstu umferð og fyrir valinu varð leikur Álftaness og Keflavíkur.

„Það er helst út af því að við teljum að bæði þessi lið geti strax í fyrsta leik svarað nokkrum spurningum,“ segir Pavel.

„Ég er búinn að finna nafn á leikinn. Ég nefndi hann „Meira partý – minna partý“-leikurinn. Ég skal útskýra. Keflavík er stanslaust djamm. Staffapartý, karókíkvöld, utanlandsferðir… það er alltaf eitthvað um að vera hjá þeim. Það er andrúmsloftið. Alltaf gaman. Álftanes er meira eins og rúðustrikuð endurskoðunarskrifstofa. Eitt, tvö kokteilboð og bingókvöld í mesta lagi,“ segir Pavel.

Þeir Helgi rýndu í myndbönd frá viðureignum liðanna síðasta vetur og fóru með skemmtilegum hætti enn frekar yfir muninn á þeim, en þáttinn má sjá hér að ofan.

Bein útsending frá GAZ-leik Pavels hefst á Stöð 2 BD klukkan 19:05 í kvöld. Hægt verður að horfa á alla leiki umferðarinnar á Sportrásum Stöðvar 2 og Skiptiborðið verður á sínum stað á Stöð 2 Sport klukkan 19:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×