Leikurinn var æsispennandi frá upphafi til enda, liðin skiptust á forystunni en aldrei munaði meira en þremur mörkum.
Haukar einu voru marki yfir í hálfleik og skrefi á undan allan seinni hálfleik en HK nartaði sífellt í hælana. Þeim tókst svo að jafna leikinn, 25-25, þegar rétt rúmar sex mínútur voru eftir.
Við tóku rosalegar lokamínútur, þar sem ómögulegt var að spá fyrir um sigurvegara. HK komst yfir, svo Haukar, svo HK aftur.
Í lokasókninni var staðan jöfn, Haukar með boltann og í góðum séns á sigri, en Birkir Snær tapaði boltanum á lokasekúndunum.
Liðin skildust því að með jafna stöðu, 29-29, og eitt stig hvert.
Skarphéðinn Ívar Einarsson átti stórleik í liði Hauka og skoraði 12 mörk, næstur á eftir honum var Össur Haraldsson með 5 mörk.
HK dreifði álaginu jafnar milli manna, Ágúst Guðmundsson var markahæstur með 6 mörk og þrír komu þar á eftir með 5 mörk.
Haukar, sem hafa spilað einum fleiri leik vegna þátttöku í Evrópukeppni síðar á tímabilinu, hafa nú safnað 7 stigum úr 6 leikjum. HK er með 3 stig úr 5 leikjum.