Aftonbladet í Svíþjóð fullyrðir að Svíar séu nú nálægt því að ráða hinn fertuga Michael Apelgren í starfið, sem losnaði 20. september þegar Glenn Solberg hætti óvænt.
„Það er samtal í gangi á milli mín og sambandsins,“ staðfesti Apelgren við Aftonbladet.
Hann var einn af þeim sem orðaðir voru við stöðu landsliðsþjálfara Íslands snemma á síðasta ári, eftir að Guðmundur Guðmundsson hætti, en að lokum var Snorri Steinn Guðjónsson ráðinn.
Aðeins átta dagar eru þar til að tilkynna á sænska landsliðshópinn sem keppir á EHF Euro Cup í nóvember, í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið í janúar. Markmið sænska handboltasambandsins hefur verið að finna þjálfara fyrir þann tíma, og að ekki verði þá um tímabundna ráðningu að ræða heldur þjálfara til lengri tíma.
Apelgren var aðstoðarlandsliðsþjálfari Svía í tvö ár þar til að samningur hans rann út um síðustu mánaðamót. Hann var því fljótt álitinn líklegur kandídat í að taka við af Solberg.
Apelgren segist hins vegar ekki vera eini kostur sænska sambandsins: „Það eru fleiri enn inni í myndinni og í samtali [við sambandið],“ sagði Apelgren við Aftonbladet.
Gerðist þjálfari Janusar Daða í sumar
Aftonbladet segir að sænska sambandið sé einnig með til skoðunar Patrik Fahlgren hjá Hammarby og Oscar Carlén hjá Ystad, mögulega sem þjálfarapar, fari svo að Apelgren verði ekki ráðinn.
Apelgren fer ekki í neinar grafgötur með það að hann sækist eftir starfinu.
„Ég hef alltaf haft metnað fyrir því. Svo já, það er klárlega áhugi hjá mér þó að ég hafi ekki vonast eftir því að það yrði með þessum hætti [að Solberg hætti skyndilega, með tvö ár eftir af samningi sínum],“ sagði Apelgren sem í sumar tók við þjálfun Pick Szeged, og stýrir þar meðal annars Janusi Daða Smárasyni.
Aftonbladet segir að í samningi Apelgren við Pick Szeged sé skýrt að hann megi einnig þjálfa landslið, en þó sé verið að bíða eftir staðfestingu frá ungverska liðinu á því að Apelgren megi gegn báðum störfum. Blaðið segir að það sé það helsta sem enn komi í veg fyrir ráðningu hans í landsliðsþjálfarastarfið.