Sport

Nadal leggur spaðann á hilluna: Síðustu tvö ár verið sér­stak­lega erfið

Sindri Sverrisson skrifar
Rafael Nadal keppti á Ólympíuleikunum í París í sumar og það reyndust hans síðustu leikar.
Rafael Nadal keppti á Ólympíuleikunum í París í sumar og það reyndust hans síðustu leikar. Getty

Spænska tennisgoðsögnin Rafael Nadal hefur ákveðið að leggja spaðann á hilluna í lok þessa keppnistímabils. Hann hefur unnið 22 risamót á ferlinum.

Hinn 38 ára gamli Nadal ætlar að láta síðasta mót sitt vera heima á Spáni í nóvember, þar sem úrslitakeppni landsliðamótsins Davis Cup fer fram í Málaga.

„Ég er hér til að láta ykkur vita að ég er að hætta sem atvinnumaður í tennis,“ sagði Nadal í myndbandi. Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn hjá honum síðustu misseri.

„Raunin er sú að þetta hafa verið erfið ár, sérstaklega tvö síðustu. Ég held að ég hafi ekki getað spilað tennis af fullum þrótti,“ sagði Nadal þegar hann tilkynnti ákvörðun sína.

Nadal hefur verið kallaður „konungur leirsins“ en hann hefur ætíð kunnað sérstaklega vel við sig á leirvöllum. Hann á til að mynda metið yfir flesta titla í einliðaleik á Opna franska mótinu, sem hann vann 14 sinnum. Hann vann 112 af 116 leikjum sínum á Roland Garros á vellinum.

Alls vann Nadal 22 risamót, eins og fyrr segir, og aðeins einn hans helsti keppinautur í gegnum tíðina, Novak Djokovic, hefur unnið fleiri.

Djokovic vann Opna bandaríska mótið fjórum sinnum, og Opna ástralska og Wimbledon-mótið tvisvar sinnum hvort.

Hann vann einnig ólympíugull í einliðaleik og tvíliðaleik, og hefur unnið Davis Cup fimm sinnum með Spáni, síðast árið 2019.

„Ég held að núna sé við hæfi að ljúka ferli sem hefur verið langur og mun farsælli en mig hefði nokkurn tímann órað fyrir. Ég er mjög spenntur fyrir lokamótinu mínu þegar ég keppi fyrir þjóð mína á Davis Cup,“ sagði Nadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×