Sjöttu umferð Ljósleiðaradeildarinnar í Counter Strike lauk á fimmtudagskvöld með þremur leikjum þar sem allra augu beindust að hörkuspennandi viðureign Sögu og Veca sem lauk með þríframlengdum leik í Inferno þar sem Veca hafði loks sigur 22-19.
Veca hafði áður lagt andstæðingana í Sögu að velli í Nuke í fyrri leiknum sem einnig var æsispennandi. Lokatölur þar voru 13-10 fyrir Veca sem vann umferðina því 2-0.
Úrslit leikja í 6. umferð:
Rafík - Þór 0-2
Dusty - Ármann 2-0
ÍA - Höttur 0-2
Saga - Veca 0-2
Kano - Venus 2-0
„Þeir vinna þennan leik ótrúlega. Hvað vorum við að horfa á hérna?“ sagði Einar, um sína menn í Veca, eftir seinni leikinn og bætti við að hann væri í sjokki. Tómas sagði að leikurinn hefði einfaldlega verið „gjörsamlega svakalegur.“

Þá bætti hann við að Veca hafi komist þetta á hreinni og klárri seiglu. „Þessi leikur var tapaður örugglega svona ellefu sinnum hjá Veca en einhvern veginn klóruðu þeir sig til baka.“
Sjöunda umferð Ljósleiðaradeildarinnar hefst á þriðjudaginn 15. október ananrs vegar með viðureign Dusty og Hattar og Kano og ÍA hins vegar. Umferðin klárast síðan á fimmtudeginum þegar Saga mætir Ármanni, Rafík og Venus eigast við og Þór tekur slaginn við Veca.
