Körfubolti

Pavel „of­boðs­lega hrifinn“ af nýju KR-ingunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij hrósar meðal annars Linards Jaunzems sem er 28 ára gamall Letti og spilar stöðu framherja.
Pavel Ermolinskij hrósar meðal annars Linards Jaunzems sem er 28 ára gamall Letti og spilar stöðu framherja. Vísir/Hulda Margrét/KR

Það er alltaf mikið happadrætti að velja sér erlenda leikmenn í köfuboltanum en KR-goðsögn er á því að þeir hafi fengið vinninginn í haust.

KR-ingar eru nýliðar í Bónus deild karla í körfubolta í vetur og tefla meðal annars fram tveimur nýjum Evrópumönnum í þeim Linards Jaunzems og Vlatko Granic.

KR vann Tindastól á Króknum í fyrsta leik og tapaði síðan naumlega á móti sterku liði Stjörnunnar í síðasta leik. KR var því hársbreidd frá því að hafa unnið tvö af sterkustu liðum deildarinnar.

Pavel Ermolinskij, nýr sérfræðingur í Bónus Körfuboltakvöldi, þekkir vel til hjá KR eftir að hafa unnið sjö Íslandsmeistaratitla með félaginu.

Pavel vildi fá tækifæri í þættinum til að hrósa þeim Linards og Granic. Hann er sérstaklega hrifinn af sendingagetu leikmannanna.

„Ég er ofboðslega hrifinn af þeim og mér finnst þetta vera algjör negla,“ sagði Pavel.

„Þeir eru báðir ótrúlega svipaðir leikmenn. Oftast eru liðin að reyna að finna leikmenn sem vega hvorn annan upp. Einn stór eða einn lítill eða eitthvað svoleiðis. Einn getur skotið og einn durgur,“ sagði Pavel.

„KR er með tvo mjög svipaða náunga. Þeir eru báðir góðir íþróttamenn, fljótir upp völlinn og hreyfa sig rosalega vel. Þeim líður vel með boltann og geta báðir skotið eitthvað aðeins fyrir utan. Þetta eru engir snillingar en munu eiga leiki,“ sagði Pavel.

„Það sem ég elska mest við þá er að þetta eru báðir góðir sendingamenn,“ sagði Pavel sem telur að nú séu margir öflugir sendingarmenn í liði KR sem ætti að gefa liðinu tækifæri á því að opna varnir mótherjanna.

Það má horfa á Pavel tala um nýju KR-ingana hér fyrir neðan.

Klippa: Pavel hrifinn af KR-ingunum Linards og Granic.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×