Sport

Fyrsti finnski íshokkíleikmaðurinn sem kom út úr skápnum myrtur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janne Pahukka, 1995-2024.
Janne Pahukka, 1995-2024.

Janne Puhakka, fyrsti leikmaðurinn í finnsku íshokkídeildinni sem kom út úr skápnum, var skotinn til bana í gær. Hann var 29 ára. Sá grunaði er Norðmaður á sjötugsaldri.

Puhakka var myrtur í íbúð í Espoo í Finnlandi. Samkvæmt frétt VG í Noregi er sá grunaði í varðhaldi og lögreglan hefur gert morðvopnið upptækt. Í finnskum fjölmiðlum kemur fram að norskur ríkisborgari á sjötugsaldri sé grunaður um morðið.

Fyrir fimm árum steig Puhakka fram og greindi frá því að hann væri samkynhneigður. Hann var fyrsti leikmaðurinn í efstu deild í íshokkí í Finnlandi sem kom út úr skápnum.

Puhakka var búinn að leggja skautana á hilluna en var enn í sviðsljósinu og var meðal annars þátttakandi í raunveruleikaþættinum Petolliset sem er finnsk útgáfa af the Traitors. Hann var kominn í úrslit þáttarins sem átti að vera á dagskrá á fimmtudaginn. Sýningu hans hefur verið frestað.

Samkvæmt upplýsingum frá finnsku lögreglunni fékk hún ábendingu um skotárásina í gærkvöldi. Handtakan gekk vel en sá grunaði kom sjálfviljugur út úr íbúðinni. Hann verður yfirheyrður í dag. Lögreglan telur sig vita um ástæðu morðsins að því er fram kemur í frétt VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×