Körfubolti

Hörður Axel búinn að ná Loga í þristum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson hefur hitt úr 7 af 19 þriggja stiga körfum sínum í upphafi leiktíðar.
Hörður Axel Vilhjálmsson hefur hitt úr 7 af 19 þriggja stiga körfum sínum í upphafi leiktíðar. Vísir/Vilhelm

Hörður Axel Vilhjálmsson hefur verið á hraðferð upp listann yfir flestar þriggja stiga körfur í fyrstu umferðum Bónus deildar karla í körfubolta.

Hörður Axel hefur skorað sjö þriggja stiga körfur í fyrstu þremur leikjunum þar af komu fjórar þeirra í síðasta leik á móti Val.

Hann hefur þar með skorað 595 þrista samanlagt í 276 leikjum sínum í úrvalsdeild og með því náði hann að jafna við Loga Gunnarsson á listanum yfir flesta þriggja stiga körfur í deildarleikjum.

Logi skoraði sína 595 þrista í 291 leik eða í fleiri leikjum en Hörður. Hörður er með 2,15 þrista í leik en Logi er með 2,0 þrista í leik.

Hörður Axel byrjaði tímabilið í ellefta sæti listans en er nú kominn upp í sjöunda sætið við hlið Loga. Gunnar Einarsson var sá sem datt út af topp tíu listanum.

Með því að skora fjóra þrista á móti Íslandsmeisturum Vals þá náði Hörður því í 53. sinn að skora fjóra þrista eða fleiri í einum leik. 

Hann hefur mest skorað fimm þrista í einum leik með Álftanesi en persónulega metið hans eru átta þristar í leik með Keflavík á móti Snæfelli í nóvember 2008.

  • Flestar þriggja stiga körfur í úrvalsdeild karla:
  • 1. Páll Axel Vilbergsson 1038 þristar
  • 2. Guðjón Skúlason 965 þristar
  • 3. Brynjar Þór Björnsson 872
  • 4. Magnús Þór Gunnarsson 867
  • 5. Teitur Örlygsson 742
  • 6. Kristinn Friðriksson 675
  • 7. Hörður Axel Vilhjálmsson 595
  • 7. Logi Gunnarsson 595
  • 9. Guðmundur Jónsson 594
  • 10. Valur Ingimundarson 593



Fleiri fréttir

Sjá meira


×