Lífið

Flautað á dúfurnar á Eyrar­bakka og þær koma heim

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hlöðver ásamt Þóru Ósk Guðjónsdóttur, konu sinni, sem hvetur hann áfram í dúfnaræktinni.
Hlöðver ásamt Þóru Ósk Guðjónsdóttur, konu sinni, sem hvetur hann áfram í dúfnaræktinni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Dúfur og aftur dúfur er það sem lífið snýst meira og minna um hjá íbúa á Eyrarbakka, sem eyðir ófáum stundum á hverjum degi við að sinna fuglunum sínum enda unnið til óteljandi verðlauna með dúfurnar sínar. Dómaraflauta kemur við sögu í dúfnaræktuninni.

Hér erum við að tala um Hlöðver Þorsteinsson Eyrbekking, sem hefur ræktað dúfur með góðum árangri til fjölda ára. Hlöðver fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum en hann hefur ekki látið það stoppa sig við dúfnaræktunina, hann hefur bara eflst ef eitthvað er við að hugsa um dúfurnar sínar og fara með þær í keppnir.

„Ég er með 40 dúfur, það er mjög gaman, ég lifi fyrir það að vera hérna úti í kofa og er þar í rauninni meira en inni í húsin mínu,” segir Hlöðver hlæjandi.

Og hér flautar Hlöðver með dómaraflautu á dúfurnar en þá er hann að koma þeim skilaboðum á framfæri eftir að þær hafa flogið nokkra hringi að þær eigi að koma heim í kofann sinn, sem heitir Silfurloft og þær skila sér alltaf allar.

Hlöðver Þorsteinsson dúfnaræktandi á Eyrarbakka, sem segir að dúfurnar hafi hjálpað sér mikið í veikindum sínum. Hér er hann að flauta á dúfurnar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hlöðver hefur unnið til fjölda verðlauna með dúfurnar sínar í allskonar flugkeppnum.

En hvetur Hlöðver fólk til að fá sér dúfur í garðinn sinn?

„Ef það hefur áhuga á því um að gera. Bara með mig og mín veikindi þá hafa dúfurnar gefið mér allt, þær hjálpa mér svo mikið”, segir Hlöðver.

Dúfurnar hjá Hlöðveri eru mjög fallegar og hafa unnið til fjölmargra verðlauna í gegnum árin.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×