Innherji

Un­bro­ken sótti hálfan milljarð og stefnir að skráningu innan fárra ára

Hörður Ægisson skrifar
Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Unbroken.
Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Unbroken.

Íslenska sjávarlíftæknifélagið Unbroken, sem er meðal annars að stórum hluta í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur, hefur klárað hlutafjáraukningu upp á samtals hálfan milljarð króna í því skyni að efla alþjóðlega markaðssetningu á hinu „byltingarkennda“ fæðubótarefni. Virði félagsins í viðskiptunum er um 7,5 milljarðar en Unbroken fæðubótarefnið er núna selt til tuga landa.

Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Unbroken, segir fjármögnunina mikilvægan áfanga í að efla fyrirtækið á heimsvísu. „Við horfum til þess að styrkja núverandi stöðu okkar í Bandaríkjunum, Evrópu, Miðausturlöndum og fyrir markaðsátak í Asíu,“ er haft eftir honum í tilkynningu.

Unbroken er framleitt í eigin verksmiðju fyrirtækisins í Noregi en Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) er stærsti hluthafinn og átti 40 prósenta hlut um síðustu áramót. Félagið segist núna vera að horfa til skráningar á hlutabréfamarkað innan fárra ára.

Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, segir markmiðið að hlúa að nýsköpun og auka arðsemi og ávinning af sjávarfangi. „Fjárfestingin hefur gefið ÚR tækifæri til að víkka út starfsemi sína. Félagið hefur öðlast nýja reynslu og þekkingu á sviði líftækni sem hjálpar okkur að hámarka virði afurða okkar.“

Við horfum til þess að styrkja núverandi stöðu okkar í Bandaríkjunum, Evrópu, Miðausturlöndum og fyrir markaðsátak í Asíu.

Fyrirtækið Unbroken, sem selur fæðubótarefni sitt í meira en 40 löndum í gegnum erlendar vefverslanir, var stofnað árið 2018 og hefur veltan að jafnaði tvöfaldast milli ára. Samkvæmt ársreikningi síðasta árs námu heildartekjur félagsins um 107 milljónum króna.

Í tilkynningu frá félaginu vegna hlutafjársöfnunarinnar er bent á að fæðubótarefnið byggi á áralöngum rannsóknum og þróunarvinnu. Það veiti mjög hraða vöðvanæringu úr 100 prósent niðurbrotnu hágæða fersku próteini. Þá sé Unbroken vottuð sem örugg vara hjá Matvæla og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) og þá er reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsnefndar Ólympíunefndarinnar fylgt við framleiðslu hennar.

Salan á fæðubótarefninu hefur tvöfaldast að jafnaði milli ára og var í fyrra um 107 milljónir.

Steinar segir fjöldi íþróttamanna á öllum getustigum víða um heim nýta sér Unbroken enda sé um að ræða eina hröðustu vöðvanæringu sem völ er á. Unbroken var fyrst þróað fyrir sjúklinga sem glíma við meltingarfæravandamál.

„Við erum með góða afkastagetu í eigin verksmiðju og erum að vinna að spennandi samstarfi víða um heim sem tengist lausnum fyrir sjúklinga, heilbrigðri öldrun, íþróttum og almennri vellíðan,“ að sögn Steinars.

„Við horfum til velgengni annarra frumkvöðla sem vinna með sjávarlíftækni í lækningaskyni. Það hefur aukið skilning og trú á virkni vara sem okkar en þá virkni þekkjum við vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×