Handbolti

Haukar unnu Hanana öðru sinni og eru komnir á­fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hergeir Grímsson skoraði tvö mörk fyrir Hauka í Finnlandi.
Hergeir Grímsson skoraði tvö mörk fyrir Hauka í Finnlandi. vísir/anton

Strákarnir hans Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar í Haukum eru komnir áfram í 3. umferð EHF-bikarsins í handbolta eftir sigur á Cocks í Finnlandi í dag, 27-29. Haukar unnu einvígið, 64-53.

Haukar voru í afar vænlegri stöðu eftir níu marka sigur í fyrri leiknum um síðustu helgi, 35-26.

Oft hafa sést miklar sveiflur hjá liðum milli heima- og útileikja en ekkert slíkt gerðist í dag. Finnarnir gerðu sig aldrei líklega til að ógna forskoti Hafnfirðinga og náðu aldrei meira en tveggja marka forskoti.

Munurinn var einmitt tvö mörk í hálfleik, 14-12, en Haukar voru sterkari eftir hlé. Þeir breyttu stöðunni úr 17-15 í 17-19 og litu aldrei um öxl eftir það. Mestur varð munurinn fjögur mörk.

Á endanum munaði tveimur mörkum á liðunum, 27-29, og ellefu marka samanlagður sigur Hauka staðreynd.

Markaskorið dreifðist vel hjá Haukum í dag. Adam Haukur Baumruk, Freyr Aronsson og Birkir Snær Steinsson voru markahæstir með fjögur mörk hvor. Aron Rafn Eðvarðsson varði tólf skot (35 prósent) og Vilius Rasimas eitt (sautján prósent).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×