Lífið

Støre lét sig ekki vanta í Sund­höllina

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Støre hefur aldrei verið betri.
Støre hefur aldrei verið betri.

Jonas Gahr Støre for­sætis­ráð­herra Noregs lét sig ekki vanta í Sundhöll Reykjavíkur þegar hún opnaði í morgun. Hann skellti sér í heita pottinn eldsnemma og var eftir ferðina tilbúinn í fundardag með leiðtogum hinna Norðurlandanna.

Forsætisráðherrann birti myndir úr sundinu á samfélagsmiðlinum Instagram. Støre er líklega stærsti aðdáandi íslenskrar sundmenningar utan landsteinanna en hann fer í sund í hvert einasta skiptið sem hann sækir klakann heim. Hann er staddur hér á landi til að sækja Norðurlandaráðsþing sem haldið er í Reykjavík í þetta skiptið. 

Það hefur raunar vakið athygli í Noregi hvað Støre elskar íslenskar sundlaugar og var aðdáunin umfjöllunarefni norska ríkisútvarpsins í maí í fyrra þegar Støre sótti leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík. Þá tók fréttamaður NRK viðtal við Støre þar sem hann var staddur í heitasta potti Sundhallarinnar um íslensku sundmenninguna.

„Ég kem alltaf hingað þegar ég er á Ís­landi, þetta er ís­lensk hefð að skella sér í þessi böð,“ sagði ráðherrann við NRK í fyrra. Hann sagði við tækifærið að Ísland ætti sér­stakan stað í hjörtum Norð­manna.

Haft var eftir Støre að það séu á­kveðnar sam­skipta­reglur og hefðir þegar kemur að því að slaka á í heita pottinum á Ís­landi. Það mikil­vægasta sé að slaka á og spjalla, ef þess sé kostur.

Svona byrjar Støre daginn í Reykjavík.

Støre hefur aldrei verið betri.

„Nú er ég klár í að hitta góða norræna kollega!“ segir forsætisráðherrann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.