Handbolti

Harpa Valey tryggði Sel­fossi stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harpa Valey Gylfadóttir tryggði Selfossi stig gegn Fram.
Harpa Valey Gylfadóttir tryggði Selfossi stig gegn Fram. vísir/viktor

Selfoss og Fram gerðu 27-27 jafntefli í Olís-deild kvenna í kvöld. Harpa Valey Gylfadóttir skoraði jöfnunarmark Selfyssinga og Cornelia Hermansson tryggði þeim svo stig með því verja skot frá Ölfu Brá Hagalín á lokasekúndunum.

Eftir leikinn í kvöld er Fram með tíu stig í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Vals. Selfoss er í 4. sæti með sex stig. Selfyssingar eru taplausir í síðustu fjórum leikjum sínum.

Fram var með frumkvæðið í fyrri hálfleik en Selfoss vann á eftir því sem á hann leið. Staðan var jöfn í hálfleik, 15-15.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og komust með fjórum mörkum yfir, 22-18. Framarar svöruðu með fjórum mörkum í röð og jöfnuðu í 22-22.

Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir kom Harpa Valey Selfossi tveimur mörkum yfir, 26-24. Fram skoraði næstu þrjú mörk leiksins en Harpa Valey skoraði svo jöfnunarmarkið þegar 42 sekúndur voru eftir. Fram fékk síðustu sóknina en hún fór forgörðum. Lokatölur 27-27.

Perla Ruth Albertsdóttir skoraði sjö mörk úr sjö skotum fyrir Selfoss. Katla María Magnúsdóttir var með sex mörk og Harpa Valey fimm. Cornelia varði þrettán skot í marki Selfyssinga (33 prósent).

Alfa Brá var markahæst hjá Fram með sjö mörk og Steinunn Björnsdóttir skoraði fimm. Markverðir Framara vörðu aðeins samtals sex skot (18,2 prósent).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×