Handbolti

Guð­jón Valur með sína menn í fjórða sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er að gera góða hluti með Gummersbach.
Guðjón Valur Sigurðsson er að gera góða hluti með Gummersbach. Getty/Tom Weller

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, vann sinn þriðja leik í röð í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag þegar það lagði Hamburg að velli, 33-29.

Gummersbach er því með 14 stig eftir tíu leiki og situr áfram í 4. sæti deildarinnar en nú með jafnmörg stig og Füchse Berlín sem reyndar á leik til góða.

Elliði Snær Viðarsson var á leikskýrslu hjá Gummersbach en virðist lítið hafa komið við sögu í dag, og Teitur Örn Einarsson var ekki með. Elliði ferðast nú heim til Íslands til móts við landsliðið fyrir komandi leiki í undankeppni EM.

Það gerir Viggó Kristjánsson sömuleiðis en hann var markahæstur hjá Leipzig í dag, með átta mörk, í 35-29 tapi gegn Flensburg á útivelli. Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú marka Leipzig.

Leipzig, sem leikur undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, situr í 11. sæti deildarinnar með átta stig eftir þrjú töp í röð en Flensburg er áfram stigi á eftir Gummersbach og situr í 5. sæti.

Melsungen er á toppi deildarinnar með 16 stig og Hannover Burgdorf er í 2. sæti með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×