Sport

Steinunn og Ingi­mar Ís­lands­meistarar í Cross­Fit: „Stolt af sjálfri mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Anna Svansdóttir og Ingimar Jónsson áttu bæði mjög flotta helgi og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.
Steinunn Anna Svansdóttir og Ingimar Jónsson áttu bæði mjög flotta helgi og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. Instagram

Steinunn Anna Svansdóttir og Ingimar Jónsson tryggðu sér um helgina Íslandsmeistaratitlana í CrossFit.

Ingimar var að vinna Íslandsmeistaratitilinn í þriðja sinn á fjórum árum því hann vann hann einnig titilinn 2020 og 2022.

Steinunn Anna varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

„Þvílík helgi,“ skrifaði Steinunn Anna á samfélagsmiðla sína.

„Náði öllum þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir þessa helgi og árangurinn skilaði sér í þetta sinn. Stolt af sjálfri mér, vinnunni sem liggur að baki, og að vera partur af þessu geggjaða samfélagi,“ skrifaði Steinunn.

Steinunn fékk alls 650 stig eða tíu stigum meira en Elín Birna Hallgrímsdóttir sem varð önnur. Þriðja var síðan Birta Líf Þórarinsdóttir með 625 stig.

Steinunn vann tvær greinar og varð í öðru sæti í þremur greinum til viðbótar. Hún náði því tveimur efstu sætunum í fimm af sjö greinum.

Elín Birna endaði frábærlega með því að vinna tvær síðustu greinarnar og þrjár af síðustu fjórum. Áttunda sætið í fimmtu greininni reyndist henni dýrkeypt.

Birta Líf og Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir náðu einnig að vinna grein en Guðbjörg Ósk endaði í fimmta sætinu á eftir Hjördísi Ósk Óskarsdóttur sem varð fjóra.

Ingimar fékk 660 stig eða fimmtán stigum meira en Rökkvi Hrafn Guðnason sem varð annar með 645 stig. Í þriðja sætinu varð síðan Bergur Sverrisson með 630 stig.

Ingimar vann þrjár greinar og varð í öðru sæti í tveimur greinum til viðbótar. Hann náði því tveimur efstu sætunum í fimm af sjö greinum.

Rökkvi Hrafn vann fyrstu og síðustu grein keppninnar en Bergur vann einnig tvær greinar. Verðlaunahafarnir þrír voru því þeir einu sem unnu grein í keppninni.

Fjórði í karlakeppninni varð Tryggvi Þór Logason og með jafnmörg stig í fimmta sætinu urðu síðan Böðvar Tandri Reynisson og Viktor Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×