Lífið

Meiri­hluti er haldinn loddaralíðan

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lella Erludóttir hvetur fólk til þess að vera á varðbergi gegn loddaralíðan.
Lella Erludóttir hvetur fólk til þess að vera á varðbergi gegn loddaralíðan.

Markþjálfi segir að rannsóknir sýni að mikill meirihluti fólks sé haldinn svokallaðri loddaralíðan. Konur og minnihlutahópar eru þar í miklum meirihluta en sé ekkert að gert geti það verið ávísun á kvíða, þunglyndi og að viðkomandi dragi sig til baka.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Bítinu á Bylgjunni. Þar ræðir markþjálfinn Lella Erludóttir málið en hún segist sjálf vera haldin loddaralíðan, því sem margir þekkja á ensku sem imposter syndrome. Í því felst að viðkomandi upplifir sig sem loddara í eigin lífi, líkt og hann hafi beitt blekkingum til þess að komast á þann stað sem hann er á.

Fólk dragi sig til baka

„Það hafa verið gerðar rannsóknir á þessu fyrirbæri undanfarna áratugi og niðurstöður sýna að 70 til 82 prósent manna upplifa þetta í einhverju magni á einhverjum tímapunkti en vandamálið er að sá sem upplifir loddaralíðan upplifir að hann sé sá eini í heiminum og að það sé enginn jafn ómögulegur og hann,“ segir Lella.

Hún segir að það sé hægt að mæla slíka líðan á skala. Mjög mismunandi og persónubundið sé hvernig fólk upplifi loddaralíðan. Sumir upplifi það þegar kemur að sínu starfi, hjá öðrum getur hún snúið að ákveðnum verkefnum og líðanin verið bundin við aðstæður. Hún segir að þegar ekkert sé að gert dragi fólk sig til baka.

„Það eltir ekki tækifæri eins og fólk sem ekki glímir við þetta, það er að þvælast fyrir sjálfu sér, tala sig niður og í höfðinu eru alveg ofboðslega miklar neikvæðar hugsanir og niðurbrjótandi sjálfstal þannig viðkomandi er alltaf að segja við sig: Þú átt þetta ekki skilið, þú kannt þetta ekki, þú getur þetta ekki, það er alltaf einhver annar sem ætti frekar skilið að gera þetta og auðvitað ætti ég ekki að vera að sækja um þessa stöðuhækkun því ég mun aldrei fá hana því þau vita að ég kann ekki neitt.“

Konur og minnihlutahópar upplifa þetta mest

Lella segist sjálf hafa verið haldin loddaralíðan. Hún hafi þurft ofsalega mikla sjálfsvinnu til þess að komast yfir líðanina og því brenni á henni að aðstoða aðra í sömu sporum. Hún hafi komið sér undan því að leitast eftir nýjum verkefnum en Lella segir mikinn mun á kynjunum þegar kemur að þessari líðan.

„Þetta er algengara hjá konum og þetta er enn algengara hjá öðrum minnihlutahópum. Því minni sem minnihlutahópurinn er sem þú tilheyrir því meiri líkur eru á því að þú upplifir loddaralíðan. Einn þátturinn í þessu er að upplifa að maður sé öðruvísi. Þannig ef þú tilheyrir minnihlutahópi inni á vinnustaðnum þá er líklegra að fólk upplifi þetta.“

Lella segir mikilvægt að talað sé um loddaralíðan á opinskáan hátt. Leiðtogar innan fyrirtækja þurfi að vera vakandi fyrir þessari líðan og bendir Lella á að fullkomnunarárátta sé ákveðin mynd loddaralíðunar. Ef ekkert sé að gert geti það verið ávísun á kvíða, þunglyndi og að viðkomandi dragi sig til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×