Staðreyndin er hins vegar eftirfarandi: Að teknu tilliti til ríflegra arðgreiðslna frá Orkuveitunni og væntrar eignasölu (sem ekki er frágengin) er tæplega tólf milljarða tap af sjálfum rekstri borgarsjóðs. Fyrir liggur að Perlan verður ekki seld oftar en einu sinni, og fyrirséð eru aukin fjárútlát Orkuveitunnar, meðal annars vegna áhættufjárfestingar í Carbfix. Því er deginum ljósara að rekstur borgarinnar er að óbreyttu tæpast sjálfbær.
Þær hagræðingaraðgerðir sem borgarstjóri kallar þær mestu frá fjármálahruni virðast sömuleiðis vera í mýflugulíki. Launakostnaður hækkar um ríflega sjö milljarða milli ára – talsvert umfram kjarasamninga – og önnur rekstrargjöld um rúma fimm milljarða. Engin merki eru um neina hagræðingu sem tekur að tala um.
Viðsnúningurinn í fjármálum borgarinnar er ímyndaður.
Raunar er merkilegt út af fyrir sig að valdhafar í borginni – sem er með skráð skuldabréf á markaði – hafi treyst sér til að tilkynna uppgjör og áætlanir í þessum búningi í Kauphöllina.
Auðvitað eru fjármál sveitarfélaga ekki mest spennandi fréttamálið. Fjölmiðlamenn gegna þó því hlutverki að veita valdhöfum aðhald en gleypa ekki það hrátt sem frá þeim kemur. Viðsnúningurinn í fjármálum borgarinnar er ímyndaður. Eina breytingin er sú að í borgarstjórastólinn er sestur maður sem kann þá list betur en flestir að matreiða málin fyrir fjölmiðla.
Fjárhagsstaða langstærsta sveitarfélags landsins er grafalvarlegt mál. Fyrirsjáanlegt er að stjórnmálamenn beitti öllum brögðum til að fegra stöðuna nú í aðdraganda þingkosninga. Miðlarnir lærðu ekki heima og féllu á prófinu.
Að hafa skinn í leiknum
Hin afgerandi niðurstaða kosninganna í Bandaríkjunum kom mörgum á óvart. Kannanir bentu til þess að baráttan væri afar jöfn og að þróunin væri sennilega fremur Harris í hag en Trump á lokametrunum. Ýmsir miðlar, til að mynda vikuritið The Economist, héldu því beinlínis fram að Harris myndi sigra.
Kannanir bentu til þess að baráttan væri afar jöfn og að þróunin væri sennilega fremur Harris í hag en Trump á lokametrunum.
Markaðir voru hins vegar á öðru máli. Hlutabréfamarkaðurinn var staðráðinn í að Trump hefði betur og veðbankar voru alla tíð á sömu skoðun.
Ekki er gott að segja hver lærdómurinn er, en það virðist að minnsta kosti svo að þeir sem hafi beina fjárhagslega hagsmuni af útkomunni hafi reynst sannspárri.
Ráðgjafinn er vikulegur pistill þar sem innanbúðarmaður tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.